Varðliðar umhverfisins 2019 ásamt kennurum og ráðherra umhverfismála. Ljósmynd af vef umhverfis- og …
Varðliðar umhverfisins 2019 ásamt kennurum og ráðherra umhverfismála. Ljósmynd af vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur útnefnt nemendur í Ártúnsskóla í Reykjavík varðliða um­hverf­isins 2019 ásamt nemendum úr Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi. Ártúnsskóli hefur nýtt grenndar­skóg sinn til útikennslu á eftirbreytniverðan hátt og nýlega komu nemendur skólans fram í myndskeiðum sem unnin voru í samstarfi við Skógræktina og Krakkarúv í tilefni af alþjólegum degi skóga.

Þetta var tilkynnt 30. mars um leið og ráðherra afhenti verslunarkeðjunni Krónunni umhverfis­viður­kenn­ing­una Kuðunginn fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum á síðasta ári. Það voru nemendur í 9.-10. bekk Valhúsa­skóla sem hlutu útnefningu sem varðliðar umhverfisins fyrir vinnu sína með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Þau leituðu að nýjum lausnum á ólíkum umhverfisvandamálum og huguðu að því hvernig búa mætti til vöru, þjónustu eða verkferli sem stuðlaði að sjálfbærri þróun.

Verkefni nemenda í 5.-7. bekk í Ártúnsskóla í Reykjavík tengdust líka  heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Nemendurnir settu upp dagskrá þar sem heimsmarkmiðin voru kynnt með glærusýningum, leikþáttum, myndböndum og veggspjöldum og aðrir nemendur  hvattir til aðgerða. Hluti verkefnanna var líka kynntur á menningarvöku skólans fyrir vinum og fjölskyldum nemendanna auk þess sem umhverfis­nefnd skólans kom af stað átaki í matjurtarækt í gluggakistum víða um skólabygginguna. Sem fyrr greinir unnu nemendur jafnframt í samstarfi við RÚV og Skógræktina myndefni um skógrækt og komu fram í umfjöllun Krakkafrétta í Sjónvarpinu og Útvarps Krakkarúv í mars.

Fram kemur á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins það mat valnefndar að með verkefnum sínum hafi nemendur á miðstigi Ártúnsskóla gefið sérlega góða leiðsögn um hvernig best verði unnið að umhverfis­málum í framtíðinni. Þeir hafi gert sitt til að breyta hegðun annarra til hins betra, bæði í nágrenni sínu og á um allt land. Verkefnið hafi náð yfir breitt svið sjálfbærnimála og opnað augu nemenda og annarra fyrir þeim margvíslegu áskorunum sem þjóðir heims standa frammi fyrir í framtíðinni.

Texti: Pétur Halldórsson