Íslensku skógarnir geta gefið timbur í háhýsi eftir fáeina áratugi

Fjórtán hæða timbúshús var nýverið tekið í notkun í Björgvin í Noregi eins og við sögðum frá hér fyrir helgi á skogur.is.  Þetta er hæsta timburhús heims og er mun umhverfisvænna en hús úr steypu og stáli. Ríkisútvarpið tók fréttina upp og hafði eftir Þresti Eysteinssyni, sviðstjóra þjóðskóganna hjá Skógrækt ríkisins, að íslensku skógarnir myndu gefa nothæft timbur í háhýsi eftir fáeina áratugi.

Frétt Rúnars Snæs Reynissonar fréttamanns er annars á þessa leið:

Í timburháhýsi er tilbúnum einingum raðað í grind úr rammgerðum límtrésbitum. Fram kemur á vef Skógræktar ríkisins að 14 hæða heimsmet Norðmanna standi ekki lengi. Reisa eigi 20 hæða timburhús í Vancouver í Kanada. Vitnað er í norskan sérfræðing sem spáir því að 6-10 hæða timburblokkir verði algeng sjón. Þröstur Eysteinsson, sviðsstjóri þjóðskóga hjá Skógrækt ríkisins, segir að á næstu áratugum verði hægt að nýta timbur úr íslenskum skógum til að stórlækka kolefnisfótspor nýbygginga.

„Staðan er sú að við höfum skóga, til dæmis sitkagreni, rússalerki, hugsanlega stafafuru og jafnvel alaskaösp sem verða það stór tré að það verður hægt að vinna timbur úr þeim til þess að byggja slíkar byggingar,“ segir Þröstur.

Hann bendir á að þegar sé farið að byggja minni byggingar úr íslensku timbri. „Það er verið að vinna timbur í ásatrúarhof í Öskjuhlíðinni núna úr lerki í Hallormsstaðarskógi. Það er þegar komið í litlu magni fyrir tiltölulega litlar byggingar.“ Hann telur að 2-3 áratugir séu í að íslenskir skógar fari að skila af sér hráefni sem myndi duga í háhýsi.

„Helstu kostirnir við timbur samanborið við steinsteypu eru þeir að það er miklu minni umhverfiskostnaður af timbrinu. Það er mikil kolefnislosun við framleiðslu á sementi og mikil kolefnislosun við flutning á þungu efni samanborið við létt efni eins og timbur. Það þarf að hanna timburháhýsi öðruvísi en háhýsi úr stáli eða steinsteipu. Það er öðruvísi sveigjanleiki, það er öðruvísi harka. Það er aðeins flóknara að hanna háhýsi úr timbri heldur en úr steinsteypu eða stáli en ekkert sem er ógerlegt.“

Texti: Pétur Halldórsson