Í vikunni var haldið námskeið fyrir þá kennara sem sýnt höfðu áhuga á að taka þátt í fjögurra landa samstarfi um þróun á námsefni í skógartendu sjálfbærniútinámi. Anna Lena Andersen, kennari og starfsmaður Skógarfræðslumiðstöðvarinnar á Hamar í Noregi, var leiðbeinandi en hún hafði unnið verkefnistillögur sem nota mætti til að tilraunakenna í grunnskólum á Íslandi, Noregi, Lettlandi og Litháen. Kennarar frá 7 skólum tóku þátt í námskeiðinu ásamt Óskari Baldurssyni frá Samgöngu- og umhverfissviði Reykjavíkurborgar og Brynjari Ólafssyni, kennara við Háskóla Íslands.

Reiknað er með að þátttökuskólarnir skili umsögnum sínum til verkefnisstjórnar í lok skólaárs vorið 2012. Verkefnin verða að einhverju leyti aðlöguð að íslenskum veruleika en þau einkennast fyrst og fremst af hugmyndum um „skógartengd vistskref" í nærumhverfi og í alþjóðasamhengi og miða að því að auka skilning og virðingu fyrir mikilvægi skógarins fyrir náttúru, mannlíf og lífsgæði til framtíðar.

Mynd og texti: Ólafur Oddsson