Skógrækt ríkisins flutti í síðustu viku út bæði stiklinga og plöntur til Hjaltlands.

Um er að ræða 3000 stiklinga af nokkrum klónum alaskaaspar, alaskavíðis, jörvavíðis, rjúpuvíðis og sitkavíðis auk íslensku gulvíðiklónanna "Brekkuvíðis" og "Strandavíðis".  Þá fóru 400 berrótarplöntur af sitkaelri sem búnar voru til með því að skola moldina af bakkaplöntum.  Efnið kom frá gróðrarstöð Skógræktar ríkisins á Tumastöðum.

Pakkarnir þrír, sem vogu samtals yfir 30 kg, voru ekki nema 3 virka daga að komast til Leirvíkur með hraðflutningi.  Steve Jay, sá sem pantaði efniviðinn, hafði samband þegar pakkarnir komu, var yfir sig ánægður og bað
fyrir kærum þökkum til þeirra sem komu að málinu hér.

Í skógræktarlegu tilliti eru Hjaltlendingar á svipuðu róli og Íslendingar voru um 1950.  Almenningur telur að ómögulegt sé að rækta þar skóg, enda heldur ekkert land til skógræktar þar sem þörf er á öllu tiltæku landi til sauðfjárbeitar.  Þess ber að geta að á Hjaltlandseyjum, sem eru jafnstórar samanlagt og u.þ.b. hálfur Reykjanesskaginn, eru að jafnaði um 500.000
kindur eða álíka margar og vetrarfóðrar kindur eru á Íslandi.

Það er gaman til þess að vita að íslenskur skógur muni vaxa á Hjaltlandi.