Jóhanna og Halldór við vinnuna með stiklingana í gróðurhúsinu á Mógilsá. Ljósmynd: Bjarki Þór Kjarta…
Jóhanna og Halldór við vinnuna með stiklingana í gróðurhúsinu á Mógilsá. Ljósmynd: Bjarki Þór Kjartansson

Undanfarna daga hefur verið unnið að því í gróðurhúsi Skógræktarinnar að Mógilsá að stinga græðlingum af úrvalsklónum alaskaaspar með áherslu á ryðþol. Klónarnir verða settir í beð á Tumastöðum í Fljótshlíð og mögulega víðar um land og notaðir sem móðurefni til ræktunar á ösp.

Í Hrosshaga Biskupstungum er gott safn ryðþolinna klóna af alaskaösp. Hér er Jóhanna að safna stiklingaefni í Hrosshaga. Ljósmynd: Valgerður JónsdóttirAlls var safnað efni af 27 klónum. Efnið var sótt í safn í Hrosshaga Biskupstungum. Enginn snjór var á svæðinu þegar græðlingaefninu var safnað og veður gott þannig að vel gekk að ná í efni­viðinn. Að þessu unnu Jóhanna Bergrúnar Ólafsdóttir og Hall­dór Sverrisson, sérfræðingar á rannsókna­sviði Skógræktarinnar, og Valgerður Jóns­dótt­ir, verkefna­stjóri fjölgunarefnis.

Klónarnir hafa flestir aukið þol gagnvart aspar­ryði  samanborið við marga af gömlu ís­lensku klónunum sem verið hafa í ræktun. Ekki er þó hægt að segja að þeir séu allir ryðþolnir með öllu en yfirleitt eru þeir með meira þol gagnvart ryðinu en flestir eldri klónanna og jafnframt síður hætt við kalskemmdum. Nýju klónarnir vaxa einnig hraðar en flestir gömlu klónarnir. Þessi efniviður er afrakstur kyn­bóta­starfs sem Halldór Sverrisson hefur stýrt um árabil. Þar hefur eitt meginmarkmiðið einmitt verið að finna aspir sem hefðu góða mótstöðu gegn asparryði en yxu líka vel.

Þegar efninu hafði verið safnað var það klippt niður í græðlinga og stungið í bakka í gróður­húsinu á Mógilsá. Það sem afgangs varð verður sent norður að Vöglum í Fnjóskadal þar sem græðlingum verður einnig stungið í bakka. Áætlað er að græðlingarnir verði í gróðurhúsi í um tvo mánuði. Á meðan verður fylgst með laufgun allra klóna og skráð hvernig hverjum og einum klóni vegnar.

Þegar dag fer að lengja og birtuskilyrði verða orðin ákjósanleg verða plönturnar fluttar í starfstöð Skóg­rækt­ar­inn­ar að Tumastöðum í Fljótshlíð. Þar er stefnt að því að teknir verði sumargræðlingar sem mögu­lega verði tilbúnir til afhendingar í haust. Græðlingarnir verða svo settir niður í beð á Tumastöðum og trén sem vaxa upp af þeim notuð móðurefni á komandi árum. Vonast er til að eitthvað af þessum græð­ling­um verði settir niður á öðrum stöðum á landinu líka. Það er mikilvægt því að þessir klónar hafa ekki verið prófaðir í öðrum landshlutum. 

Stiklingarnir eru settir í 35 gata bakka. Af þeim verður til móðurefni á Tumastöðum og víðar um land sem notað verður til fjölgunar. Ljósmynd: Valgerður JónsdóttirÞetta starf er liður í því að fjölga hraustari einstaklingum af ösp, sem hafa meðal annars meiri mótstöðu gegn asparryðinu. Einnig má horfa á þetta sem lið í því stóra verkefni að auka skógrækt í landinu til kolefnisbindingar því að auk sitkagrenis er alaskaösp sú trjátegund sem bindur mest kolefni í íslenskum skógum.

Texti: Pétur Halldórsson