Þórsmerkursvæðið hefur gróið upp frá því að vera uppblásið land með nokkrum kjarrivöxnum gróðurtorfum, yfir í að vera eitt af gróskumestu birki skóglendum landsins með einstaka rofblettum. Hefur svæðið verið í umsjá Skógræktar ríkisins frá árinu 1919 þegar það var beitarfriðað með samningum við eigendur beitarréttar og skógarnytja á svæðinu.

Hér má sjá tvær myndir teknar á sama stað, í mynni Tindfjallagils; önnur af Garðari Jónssyni, skógarverði á Suðurlandi frá 1944 til 1986, (líklega tekin á sjöunda áratug 20. aldarinnar) og hin tekin í sumar af núverandi skógarverði. Gamla skógræktargirðingin sem girt var fyrst árin 1923-1925 er í forgrunni á eldri myndinni. Þó sjónarhornið sé ekki alveg það sama má öllum vera ljóst að beitarfriðun hefur haft góð áhrif á útbreiðslu birkisins af fræi.

Elstu upplýsingar um flatarmál skóga eru til frá árinu 1899, en þá mat Einar Helgason flatarmál skógartorfa á Þórsmerkursvæðinu vera um 200-300 ha. Var birkið þá lágvaxið og gisið kjarr, mikil jarðvegseyðing var til staðar en þó mátti finna einstaka hríslu allt að 5 m á hæð. Í úttekt sem gerð var árið 2011 af Birni Traustasyni og Bjarka Þór Kjartanssyni kom í ljós að skógar og stök tré höfðu breiðst út yfir hátt í 1800 ha lands. Var þar að langmestu leyti um að ræða sjálfsáningu birkiskóganna þó einnig hafi verið gróðursett á vissum svæðum, s.s. á Merkurrananum og Stakkholti.


Texti: Hreinn Óskarsson
Myndir: Garðar Jónsson og Hreinn Óskarsson