Nægt getur að bera kjötmjöl einu sinni á örfoka land til að koma þar af stað framvindu sem gerir kle…
Nægt getur að bera kjötmjöl einu sinni á örfoka land til að koma þar af stað framvindu sem gerir kleift að hefja skógrækt fljótlega í kjölfarið.

Býr örfoka land hratt undir skógrækt

Um 1800 tonn af kjötmjöli hafa verið notuð við að græða upp með skógi örfoka vikur­svæði í Þjórsárdal og umhverfis Heklu. Hreinn Óskarsson, sviðstjóri samhæfingar­sviðs Skógræktarinnar, segir að kjötmjölið sem framleitt er hjá Orkugerðinni í Flóa sé besta efnið til að bera á slík svæði. Rætt er við Hrein um kjötmjölið í þættinum Græðum landið á sjónvarpsstöðinni ÍNN.

Kosturinn við kjötmjölið er að áburðarefnin í því eru seinleyst og greinileg áburðaráhrif sjást að minnsta kosti í þrjú til fjögur ár að sögn Hreins. Þannig nýtist ein dreifing kjötmjöls líka smæsta gróðri sem fyrir er á svæðinu og fræforða sem býr í sverðinum. Því þarf ekki að dreifa fræjum með kjötmjölinu. Þau eru fyrir í sverðinum en spíra og komast á legg fyrir tilverknað áburðarefnanna sem jafnt og þétt losna úr kjötmjölinu.

Staðsetning kjötmjölsverksmiðjunnar í Flóa er mjög haganleg því stutt er í víðfeðm svæði sem þarfnast næringar svo þau geti gróið upp og grænkað á ný. Dýrt er að flytja áburð en vegna þess hve verksmiðjan er nærri svæðum eins og Þjórsárdal og Hekluskógasvæðinu, Haukadalsheiði, Hafnarsand í Ölfusi og fleiri dregur verulega úr þeim kostnaði og það hjálpar til að gera kjötmjölið hentugt til þessara uppgræðslu- og skóggræðslustarfa.

Einn meginkostur kjötmjölsins er að það er niturríkt enda ríkt af prótínum sem eru nitursambönd. Hreinn segir að kjötmjölið geti breytt landi sem virðist örfoka varan­lega í gróið land með einni dreifingu. Land­ið verði þannig fljótt tilbúið til skógræktar og stundum megi jafnvel gróðursetja tré sama haust og þá nýtist næringarefnin í kjötmjölinu líka trjánum til að komast á legg.

Hreinn ræðir um að allt of mikið sér urðað af sláturúrgangi hérlendis sem nýta mætti til framleiðslu áburðar og sömuleiðis megi nýta betur ýmsan annan úrgang, svo sem húsdýraáburð og seyru, til að koma næringarefnum í rýr landsvæði. Raunar ætti það að vera skylda að setja allan sláturúrgang í þennan farveg í stað þess að urða hann en um það vanti reglur í samfélaginu. Á sömu nótum talar Guðmundur Tryggvi Ólafsson, stjórnarformaður Orkugerðarinnar, sem líka er rætt við í þættinum. Sóun sé að henda sláturúrgangi og við niðurbrot hans í sorphaug verði til metangas og fleiri mengunarefni. Fram kemur að meiri hluti sláturúrgangs sé nú urðaður í landinu, það sé ódýrara en að senda hann til kjötmjöls- eða moltuvinnslu og ekki í augsýn að urðun verði bönnuð.

Auk þeirra Hreins og Guðmundar Tryggva er í þættinum rætt við Víði Þórsson, verksmiðjustjóra í Orkugerðinni, en horfa má á þáttinn á vef ÍNN. Umsjónarmaður er Áskell Þórisson, útgáfu- og kynningarstjóri Landgræðslunnar.

Texti: Pétur Halldórsson