Verður haldinn í Hallormsstaðaskógi 25. júní

Skógardagurinn mikli verður með hefð­bundnu sniði í ár með mat og drykk, skemmtiatriðum, keppnum og fleiru og fleiru. Hátíðin fer fram í trjásafninu á Hallormsstað.

Ýmislegt verður í boði fyrir börnin, tónlist og skemmtiatriði flutt á sviði, Íslands­meistara­keppn­in í skógarhöggi haldin og að venju heilgrillað naut af Héraði, austfirskt lamba­kjöt, pylsur, ketilkaffi og lummur og fleira. Dagskráin verður nánar kynnt í byrjun júní.

Meðal fastra liða verður að sjálfsögðu líka skógarhlaupið sem fer fram í Hallorms­staða­skógi laugardaginn 25. júní. Hlaupið byrjar í trjásafninu í Mörkinni á Hallorms­stað, skammt innan við byggðina. Hlaupið er á mjúkum skógarstígum í frábæru umhverfi.

Vegalengdir
Skógarhlaupið er 14 km. Einnig er boðið upp á 4 km fjölskylduhlaup

Skráning
Skráning á staðnum og ræsing í 14 km kl. 12:00. Fjölskylduhlaupið, 4 km með ræsingu kl 12:15.

Verðlaun
Verðlaun eru einstakir, útskornir gripir úr íslensku birki

Önnur dagskrá Skógardagsins byrjar fljótlega eftir að fyrstu hlauparar koma í mark. Dagskráin verður nánar kynnt í byrjun júní sem fyrr segir.

Að Skógardeginum mikla standa ásamt Skógrækt ríkisins Héraðs- og Austurlandsskógar, Félag skógarbænda á Austurlandi og Gróðrarstöðin Barri.