Áætlunin fyrir Þórðarstaðaskóg nær yfir jarðirnar Þórðarstaði, Belgsá og Bakkasel í Fnjóskadal. Skógrækt ríkisins eignaðist þessar jarðir á árunum 1945 til 1946.

Núverandi svæði innan girðingar í landi Þórðarstaða og Belgsár er samtals um 630 ha. Flatarmál skóglendis á þessum þrem jörðum telst vera um 560 ha og þar af er flatarmál gróðursetninga um 42 ha. Samanlögð stærð þessara þriggja jarða er samtals um 3340 hektarar.

Áætlaðar framkvæmdir á næstu tíu árum ná til um 70 hektara. Mest áhersla er lögð á grisjun, bilun (forgrisjun) og áburðargjöf (aðallega á lítt gróin svæði).

Lagt er til að uppbygging vegna ferðamennsku í Þórðarstaðaskógi verði smá í sniðum. Einungis verði settir upp 2 áningarstaðir og smávægilegar lagfæringar gerðar á gönguleið. Þórðarastaðaskógur verður áfram að mestu lítt snortinn birkiskógur.

Áætlunin fyrir Vagli á Þelamörk í Hörgárdal nær yfir 156 hektara afgirt svæði. Árið 1936 fékk Skógrækt ríkisins til umsjónar nokkurra hektara svæði úr landi Vagla, sem þá var skóglaust þótt örfáar birkirætur leyndust í sverðinum. Landbúnaðarráðurneytið afhenti síðan S.r. alla jörðina 1979. Flatarmál skóglendis telst vera um 51 ha og flatarmál gróðursetninga um 73 ha, en mismunurinn skýrist af því að yngstu gróðursetningar hafa ekki enn náð þeirri hæð að teljast skógur. Skógurinn er að mestu gróðursettur en talsverð sjálfsáning birkis hefur einnig átt sér stað innan girðingarinnar. Heildaflatarmál Vagla á Þelamörk er um 850 hektarar.

Áætlaðar framkvæmdir næstu tíu ár ná til um 57 hektara. Mest áhersla er lögð á bilun (forgrisjun) og grisjun.

Lagðar eru til tölverðar framkvæmdir til að bæta aðgengi almennings að svæðinu. Meðal annars lagfæringar á vegarslóða, merkingar á göngustígum, gerð upplýsingarskilta og grisjun á áhugaverðum skógarlundum.

Áætlanir voru unnar af Rúnari Ísleifssyni, skógræktarráðunaut, en honum til halds og trausts var nefnd skipuð Sigurði Skúlasyni, skógarverði á Norðurlandi, Margréti Guðmundsdóttur, Hallgrími Indriðasyni og Þresti Eysteinssyni.