Vegna greinar sem birtist á forsíðu Sunnlenska fréttablaðsins í síðustu viku vill undirritaður að eftirfarandi komi fram. Skógrækt ríkisins (S.r.) hefur starfað á Tumastöðum í Fljótshlíð frá árinu 1944. Þar hefur dugmikið fólk unnið að uppbyggingu á gróðrastöð og skóglendum af mikilli elju og verið öðrum fyrirmynd í skógrækt á Suðurlandi. Ásamt Tumastöðum á S.r. jarðirnar Tungu og Stóra-Kollabæ sem liggja að Tumastöðum. Töluverður samdráttur varð á plöntuframleiðslu í gróðrarstöðinni á Tumastöðum í kjölfar þess að S.r. hætti að selja plöntur á almennum markaði. Starfsemi hefur þó síður en svo lagst af á Tumastöðum og af helstu verkefnum má nefna; framleiðsla á skógarplöntum sem gróðursettar eru í lönd S.r. víða um land; ræktun og varðveisla úrvalsefniviðar trjáa og runna og miðlun græðlingaefnis til framleiðenda (s.k. ?Erfðalind skógræktar?); frægarðar af ýmsum tegundum; ræktun jólatrjáa; samstarf við Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá og fleiri aðila um tilraunir í skógarplöntuuppeldi; gróðursetning skógarplantna í lönd S.r. í Fljótshlíð og söfnun og hreinsun á innlendu fræi. Þess má einnig geta að ellefu ungmenni úr sumarvinnuflokki Landsvirkjunar hafa unnið við ýmis störf á Tumastöðum og er mikil ánægja með það samstarfs af beggja hálfu.
 Á síðasta ári voru reifaðar hugmyndir um að leigja einkaaðilum aðstöðu til ræktunar á skógarplöntum á Tumastöðum. Er þar að öllum líkindum komið tilefni fyrirsagnarinnar á grein þeirri sem birtist í síðustu viku. Þær hugmyndir gerðu ráð fyrir að gróðurhús og e.t.v. ræktunarreitir yrðu leigðir út. Yfirstjórn Skógræktarinnar áleit að erfitt væri að rækta eigin plöntur á Tumastöðum samhliða því að leigja gróðurhús út til einkaaðila og var því fallið frá þeim hugmyndum. Engar hugmyndir eru uppi um einkavæðingu á annarri starfsemi S.r. á Tumastöðum né sölu á landi S.r. í Fljótshlíð. Er það von undirritaðs að hægt verði að reka starfsemi S.r. á Tumastöðum af sama myndarskap og undanfarna áratugi.

Virðingarfyllst
Hreinn Óskarsson, Skógarvörður á Suðurlandi