Fjallað um skógrækt á Íslandi í spænsku pressunni

Spænski vefmiðillinn El Confidencial fjallar um skógrækt á Íslandi í grein sem birtist laugardainn 10. mars. Þar er farið yfir örlög skóganna sem eitt sinn þöktu stóran hluta landsins og þá viðleitni Íslendinga að breiða skóglendi út á ný.

El Confidencial er rafrænn fréttamiðill sem leggur áherslu á fréttir af efnahags- og stjórnmálum. Greinin um Ísland hefst á því að rætt er um það helsta sem dregur erlenda ferðamenn til landsins, eldfjöllin, stórbrotna jökla, fossa, hveri og heit böð. Hér sé mikið í boði fyrir þær 1,8 milljónir ferðamanna sem koma á hverju ári. Fólk taki fljótt eftir því að á Íslandi sé lítið um trjágróður og telji það stafa af kuldanum. Fæstir viti að milli 25 og 40 prósent landsins hafi verið klædd skógi þegar víkingarnir settust að á landinu. Þessum skógum hafi verið eytt.

Rætt er við Þröst Eysteinsson skógræktarstjóra í greininni. Hann nefnir að Íslands sé án efa eitt af verstu dæmunum um skógareyðingu í heiminum. Hér hafi verið skógur frá fjöru til fjalla, óhreyfður um þúsundir ára, en landnámsmenn hafi þurft að framfleyta sér, vinna járn, rækta landið og halda búfénað. Þegar um 1300 hafi verið orðinn viðarskortur í landinu og búféð hafi komið í veg fyrir að ný tré yxu upp í stað þeirra sem hurfu.

Nefnt er hversu mikilvæg sauðkindin hafi verið Íslendingum en til hennar er líka rakin meginástæða þess að 95 prósent skóglendis hurfu af landinu og skógareyðingin hafi flýtt fyrir jarðvegsrofi og eyðimerkurmyndun. Um 40% landsins teljist vera auðnir. Öskufok í kjölfar eldgosa hafi líka átt sinn þátt í gróðureyðingunni.

Því næst víkur sögunni að endurreisnarstarfinu þar sem Skógræktin hefur verið í forystu um að breiða út skóglendi á ný ásamt félagasamtökum, bændum og fleirum. Minnst hafi skógarþekjan orðið um eitt prósent í upphafi 20. aldar, jafnvel ekki nema hálft, en það sé nú um tvö prósent. Hvort þetta er lítið eða mikið fari eftir því við hvað sé miðað. Í það minnsta sé þetta lítið miðað við forna skógarþekju landsins.

Loftslagsbreytingar hjálp úr óvæntri átt

Tíundað er það markmið sem sett hefur verið fram um að tólf prósent Íslands verði þakin skógi árið 2100 og að loftslagsbreytingar geti ýtt undir að þetta markmið náist. Skógarmörk hafi færst upp um 100 metra frá 1980 og þar með sé talið að 30-40 prósent landsins geti nú hentað til skógræktar.

Að auki sé þörf á að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi og landbætur séu ein besta leiðin sem Íslendingum sé fær til að ná loftslagsmarkmiðum sínum. Þökk sé jarðvarma og vatnsafli sé þessi norræna þjóð í forystu í orkuskiptum en á móti komi mikill útblástur vegna samgangna og stóriðju.

Beðið eftir batanum

Auk Þrastar er rætt við Ragnhildi Freysteinsdóttur hjá Skógræktarfélagi Íslands sem segir að stærsti þröskuldurinn sé skortur á opinberum stuðningi við skógrækt. Bið hafi orðið á því að efnahagsbatinn sýndi sig í auknum framlögum til stærstu skógræktarverkefnanna, nýskógræktar á löndum bænda. Árleg gróðursetning hafi dregist saman úr um 6 milljónum fyrir efnahagshrunið niður í þrjár. Með hruninu og falli krónunnar hafi reyndar skapast tækifæri og viðarsala aukist innan lands. Íslendingar séu nú að þróa skógarauðlind sína og umtalsverðar tekjur að myndast. Gangi allt vel muni það auka fjárfestingu í skógrækt.

Löng leið er þó fram undan í skógrækt á Íslandi, segir í lok greinarinnar í El Confidencial, svo landið verði með álíka svipmóti og blasti við fyrstu víkingunum á sínum tíma. Hins vegar sé víst að Ísland sé ekki lengur trjálaust land og trén muni smám saman ná að nema landið á ný.

Texti: Pétur Halldórsson