Ættu að geta klætt þetta af sér með nýjum sprotum

Mikið ber á brúnu birki á höfuðborgarsvæðinu og víðar þessa dagana. Fólk hefur af þessu áhyggjur og vill vita hverju sæti. Skaðvaldurinn er birkikemba. Segja má að allt sé vaðandi í birkikembu núna á höfuðborgarsvæðinu og birki orðið brúnt af völdum hennar.

Að sögn Eddu Sigurdísar Oddsdóttur, sérfræðings á Rannsóknastöð Skógræktar, Mógilsá, er lirfan sjálf líklega búin að púpa sig eða alveg að því komin þannig að úðun dugar tæplega úr þessu. Reyndar segir hún alltaf mjög erfitt að úða gegn birkikembunni. Hún lokar sig inni milli laga í blöðunum og vandi er að ná til hennar með eitrinu. 

Binda má vonir við að birkið nái að klæða þetta af sér með nýjum sprotum að einhverju leyti í sumar. Það ætti að gerast, segir Edda, svo framarlega sem ekki verði miklar skemmdir af völdum annarra fiðrildalirfa. Ef vaxtartíðin verður áfram góð gætu áhrif birkikembunnar því horfið, a.m.k. að talsverðu leyti, strax í sumar.

Í nýútkominni bók Halldórs Sverrissonar og Guðmundar Halldórssonar, Heilbrigði trjágróðurs, segir þetta um birkikembu:

BIRKIKEMBA
Heringocrania unimaculella

Birkikemba fannst hér fyrst sumarið 2003. Tegundin hefur einnig verið nefnd birkismuga, sem lýsir vel lifnaðarháttum lirfunnar, en kembuheitið vísar til höfuðbúnaðar fiðrildisins. Birkikemba hefur nú fundist allvíða á Suður- og Suðvesturlandi. Fiðrildin verpa á vorin og lirfurnar smjúga inn í nýútsprungin laufblööð, á milli efra og neðra borðs. Þar nærast þær á blaðholdinu. Þannig myndast hálfgagnsæir gluggar á blöðunum. Lirfan er fullvaxin upp úr miðju sumri og púpar sig. Tjón af völdum borkikembu hefur aukist mjög á undanförnum árum.

Nánar um skaðvalda á birki á Skaðvaldavef Skógræktar ríkisins. Smella hér.

Birkikembufiðrildi. Efst á síðunni er mynd af lirfu í laufblaði. Myndir: ESO


Skemmdir eftir birkikembu í Elliðaárdal. Mynd: HS


Ef ágangur birkikembunnar er mikill geta skemmdirnar orðið áberandi úr fjarlægð.
Þessar myndir voru teknar í Elliðaárdal í gær, 15. júní. Myndir: HS


Myndir: Edda S. Oddsdóttir og Halldór Sverrisson