Hve hávaxið getur tré orðið? Svarið er einfalt, ef marka má niðurstöður rannsóknar sem birtust í nýjasta hefti vísindatímaritsins Nature, 130 metrar! Með öðrum orðum getur hæsta tré jarðar orðið 50 metrum hærra en Hallgrímskirkjuturn (80 m) eða 50 metrum lægra en fyrirhuguð Kárahnjúkastífa (190 m).

Í greininni er kynnt rannsókn á vatnsbúskap hávöxnustu lífveru jarðar, sem er ein tegunda rauðviða  (Sequoia sempervirens) sem vex við norðanverða strönd Kaliforníuríkis í Bandaríkjunum. Hæsta tré sem þar er að finna er 112,7 metrar á hæð og er enn að hækka um 25 sm á ári. Niðurstaða greinarhöfunda er sú að hárpípukrafturinn, sem dregur vatnið frá rótum og upp eftir krónu trésins, sé ónógur til þess að yfirvinna þyngdarafl jarðar við 122-130 metra hæð frá rótunum. Í trjátoppum hæstu trjánna er í raun "líffræðileg þurrkaeyðimörk", þ.e. vatnskortur er orðinn þar orðinn takmarkandi fyrir vöxt barrnála og ljóstillífun.

Um þetta má lesa nánar í eftirfarandi greinum:

Koch m.fl. The limits to tree height. Nature 428: 851-854 (samantekt)

Height limit predicted for tallest trees. Nature 22/4 2004 (frétt)

Study limits maximum tree height. BBC News 22/4 2004 (frétt)