Spenn­andi svepp­ir. Mynd: mbl.is/​Golli
Spenn­andi svepp­ir. Mynd: mbl.is/​Golli

Mikilvægur liður í kolefnisbindingu trjáa segir sveppafræðingur

Í skóg­rækt ætlaðri til að binda kol­efni verða svepp­irn­ir að vera með því um svepp­ina fer kol­efnið niður í jarðveg­inn. Svepp­ir eru bún­­ir til úr fín­gerðum þráðum sem virka eins og lif­andi rör og flytja vatn og nær­ing­ar­efni lang­ar leiðir. Tré treysta því á sam­lífi við sveppi,“ seg­ir Guðríður Gyða Eyjólfs­dóttir, sveppafræðingur á Náttúrufræði­stofnun Íslands, í fróðlegu viðtali sem birtist í Morgunblaðinu í gær, 2. október.

Guðríður Gyða er nýkomin heim af ráð­stefnunni Nordic Mycological Congress þar sem helstu sveppa­sér­fræðing­ar komu sam­an til að tína sveppi og bera sam­an bæk­ur sín­ar, Í viðtalinu ræðir hún meðal annars um samlíf sveppa við aðrar lífverur, til dæmis tré. Svepp­rót­ar­svepp­ir myndi t.d. út­ræna svepp­rót á furu, lerki og birki og sjái um að taka upp nær­ing­ar­efni og vatn og flytja trján­um en þiggi í staðinn kol­efni frá þess­um sam­býl­ing­um sín­um. Í skóg­rækt ætlaðri til að binda kol­efni verði svepp­irn­ir að vera með því um svepp­ina fari kol­efnið niður í jarðveg­inn.

Viðtalið tók Erna Ýr Öldudóttir blaðamaður og það er á þessa leið:


„Við fór­um í gamla beyk­i­skóga með stöku eik­um í bland, það er mjög gam­an en hér­lend­is eru ekki svona há­vaxn­ir, gaml­ir skóg­ar. Þetta var lær­dóms­ríkt og skemmti­legt, maður kynn­ist öðrum sveppa­fræðing­um, mynd­ar sam­bönd og ræðir helstu sveppa­mál­in. Það upp­götv­ast nýir og spenn­andi svepp­ir og það bæt­ast jafn­vel við teg­und­ir fyr­ir landið.


Við sáum t.d. hvítserk, Amanita virosa, mjög eitraðan ætt­ingja ber­serkja­svepps, sem er hvít­ur og stæðileg­ur og veld­ur skemmd­um á líf­fær­um og dauðsföll­um ef hans er neytt,“ seg­ir Guðríður Gyða Eyj­ólfs­dótt­ir, sveppa­fræðing­ur við Nátt­úru­fræðistofn­un Íslands (NÍ) á Ak­ur­eyri, sem stýr­ir þar svepp­a­rann­sókn­um og vís­inda­legu sveppa­safni stofn­un­ar­inn­ar, miðstöð svepp­a­rann­sókna á Íslandi. Í síðari hluta sept­em­ber­mánaðar var hald­in svepparáðstefn­an Nordic Mycological Congress í 23. sinn, þar sem helstu sveppa­sér­fræðing­ar koma sam­an til að tína sveppi og bera sam­an bæk­ur sín­ar, en Guðríður Gyða lét sig ekki vanta þar.

Ástríða fyr­ir svepp­um

„Ég fædd­ist síðasta sól­ar­dag­inn haustið 1959 á Land­spít­al­an­um en þá bjuggu for­eldr­ar mín­ir á Vatns­leysu­strönd. Eft­ir það rigndi stöðugt, heyið þornaði ekki og varð að rudda það árið. Svo þegar ég var á átt­unda ári flutt­um við upp í sveit og for­eldr­ar mín­ir tóku við bú­inu af afa og ömmu í Bryðju­holti í Hruna­manna­hreppi,“ seg­ir Guðríður Gyða af lífs­hlaupi sínu.

„Ég fór í Mennta­skól­ann að Laug­ar­vatni og þaðan í Há­skóla Íslands í líf­fræði. Ég fékk sum­ar­vinnu 1982 og 1983 hjá Rann­sókna­stofn­un land­búnaðar­ins (RALA) við að ein­angra jarðvegs­sveppi í beit­ar­landi, en at­hygli hafði vakið að lömb þrif­ust illa þótt nóg væri grasið í ákveðnum beit­ar­tilraun­um. Vís­inda­menn frá Kan­ada höfðu gert svipaðar rann­sókn­ir og fóru þeir í sam­starf við RALA. Í fram­hald­inu fékk ég inni í námi í sveppa­fræðum við Manitoba-há­skóla í Winnipeg í Kan­ada. Ég rann­sakaði sveppi sem bark­ar­bjöll­ur bera inn í við og valda gráma þannig að viður­inn fell­ur í verði,“ seg­ir Guðríður Gyða sem út­skrifaðist með doktors­gráðu í sveppa­fræðum haustið 1990.

„Ástríða mín fyr­ir svepp­um byrjaði vorið 1981 þegar ég ákvað að taka fjórða árs verk­efni í líf­fræði um jarðvegs­sveppi hjá grasa­fræðipró­fess­orn­um Herði Krist­ins­syni og ég hef svo sann­ar­lega ekki séð eft­ir því, þetta er stöðugt fjör,“ seg­ir Guðríður Gyða og hlær við. „Ég átti Sveppa­kverið eft­ir Helga Hall­gríms­son og vopnuð því ásamt bók með máluðum mynd­um af helstu gerðum sveppa fór ég og skoðaði sveppi, teiknaði þá og reyndi að greina. Um haustið tók ég jarðvegs­sýni úr landi for­eldra minna og ræktaði upp sveppi sem í mold­inni leynd­ust,“ bæt­ir hún.

Neðanj­arðar­ver­öld sveppa

Fal­lega bleik goðhelma, Mycena adon­is, fannst fyrst hér­lend­is 2009.
Mynd: Guðríður Gyða Eyj­ólfs­dótt­ir.

„Svepp­ir mynda neðanj­arðar­hag­kerfi sem sést ekki. Þeir svepp­ir sem valda tjóni eru yf­ir­leitt rann­sakaðir og vel þekkt­ir, en svo eru svepp­ir sem vaxa t.d. á arfa og eru mun minna þekkt­ir. Það er hægt að nota sveppi við að halda niðri skor­dýraplág­um og er þá talað um líf­ræn­ar varn­ir. Svepp­ir eru oft í sam­lífi við aðrar líf­ver­ur, svepp­rót­ar­svepp­ir mynda t.d. út­ræna svepp­rót á furu, lerki og birki og sjá um að taka upp nær­ing­ar­efni og vatn og flytja trján­um en þiggja í staðinn kol­efni frá þess­um sam­býl­ing­um sín­um. Flétt­ur eru sam­býli svepps og þör­ungs af svipaðri ástæðu. Í skóg­rækt ætlaðri til að binda kol­efni verða svepp­irn­ir að vera með því um svepp­ina fer kol­efnið niður í jarðveg­inn. Svepp­ir eru bún­ir til úr fín­gerðum þráðum sem virka eins og lif­andi rör og flytja vatn og nær­ing­ar­efni lang­ar leiðir. Tré treysta því á sam­lífi við sveppi,“ seg­ir Guðríður Gyða.

Stærsta líf­vera heims er svepp­ur, en menn komust að því að sami svepp­ur­inn er með þráðakerfi sitt úti um heil­an skóg. Það er lík­legt að það hafi tekið hundruð ef ekki þúsund­ir ára, en sýna­tök­ur um all­an skóg­inn með gena­rann­sókn­um leiddu í ljós að um sama ein­stak­ling­inn var að ræða.

„Svepp­ir eru oft eins og kóngu­ló­ar­vef­ur neðanj­arðar, þeir vaxa eins og þræðir út frá grói og mynda hring eða bolta neðanj­arðar og það sem er okk­ur sýni­legt er það sem kallað er sveppald­in, en í þeim fer kynæxl­un­in fram. Svepp­ir eru yf­ir­leitt í löngu „trú­lof­un­ar­ástandi“, karl­kyns og kven­kyns kjarn­ar renna sam­an í kólflaga frum­um sem klæða fan­ir eða píp­ur ald­ins­ins og síðan mynd­ast gró­in, af­kom­end­urn­ir, þar til­bún­ir til dreif­ing­ar. Þess vegna eru marg­ir svepp­ir á staf, til að vind­ur­inn nái að blása upp und­ir hatt­inn og dreifa gró­un­um þegar þau losna und­an hatt­in­um. Al­gengt er að sjá sveppi kring­um tré og eru það þá oft ald­in svepp­rót­ar­sveppa sem eru í sa­mífi við ræt­ur þeirra,“ seg­ir Guðríður Gyða.

Áhuga­sam­ir á Face­book

Guðríður Gyða held­ur úti for­vitni­legri Face­book-síðu, Funga Íslands - svepp­ir ætir eður ei. Meðlim­ir hóps­ins eru dug­leg­ir að setja inn mynd­ir af svepp­um og bera sam­an bæk­ur sín­ar.

„Þetta er mjög skemmti­legt, ég fæ frétt­ir af svepp­um úr öðrum lands­hlut­um og stund­um set­ur fólk inn spenn­andi sveppi sem eru sjald­séðir eða hafa fund­ist á nýj­um stöðum,“ seg­ir Guðríður Gyða sem svar­ar líka gjarn­an fyr­ir­spurn­um frá áhuga­söm­um.

„Besti tím­inn til að byrja að tína sveppi er oft um versl­un­ar­manna­helg­ina, en það fer þó eft­ir ár­ferði og jafn­vel því hvernig árið á und­an var. Ef sum­arið er kalt eða þurrt þá get­ur svepp­un­um seinkað. Upp úr miðjum júlí get­ur maður farið að bú­ast við svepp­um. Kúalubb­inn vex þó jafn­vel fyrr. Þegar fer að líða á ág­úst fer að verða hætta á næt­ur­frost­um og skemm­ast þau ald­in sem eru kom­in upp. Ef maður ætl­ar að vera viss um að ná mat­svepp­um er gott að byrja upp úr miðjum júlí,“ seg­ir Guðríður Gyða og bæt­ir við að sér sjálfri finn­ist furu­svepp­ur og lerk­i­svepp­ur best­ir til mat­ar.

Guðríður Gyða mæl­ir með að ef fólk ætl­ar að skoða sveppi þá sé best að stinga hníf und­ir staf­inn og lyfta sveppn­um var­lega upp, taka mynd ofan á hann, af stafn­um og upp und­ir fan­irn­ar, því það auðveldi grein­ing­una en oft get­ur verið erfitt að teg­und­ar­greina sveppi og stund­um sé það jafn­vel ekki hægt nema með smá­sjá.

Aðspurð hvað Guðríður Gyða hafi að segja ungu fólki sem lang­ar að læra sveppa­fræði: „Drífa í því, í þessu fagi er eitt­hvað nýtt og spenn­andi á hverj­um degi, stöðugur lær­dóm­ur og vitað er að mjög marg­ir svepp­ir hafa enn ekki verið upp­götvaðir þannig að sviðið er óplægður akur um langa framtíð. Svepp­ir fram­leiða allskon­ar efni, t.d. er hægt að nota suma þeirra við að eyða meng­un og til að bæta tjón sem orðið hef­ur á nátt­úr­unni, nú er verið að gera gervileður úr ákveðnum svepp, múr­steina, stóla og ótrú­leg­ustu hluti. Svo eru svepp­ir notaðir í skóg­rækt, við fram­leiðslu lyfja og flók­inna efna­sam­banda fyr­ir iðnað og mat­væli. Það eru mörg tæki­færi tengd sveppa­fræði. Sveppa­bók­in hans Helga Hall­gríms­son­ar sem hann gaf út 2010 um sitt ævi­starf á sviði sveppa­fræði, er ómet­an­leg fyr­ir alla sem hafa áhuga á svepp­um. Svepp­ir eru fjöl­breytt­ir að lit, áferð, lykt, formi og á bragðið þannig að þeir eru marg­slungið og skemmti­legt viðfangs­efni. Svepp­ir koma sí­fellt á óvart!“

Arf­ur Helga Hall­gríms­son­ar

Hjá Nátt­úru­fræðistofn­un Íslands á Ak­ur­eyri er sveppa­bóka­safn og sveppa­safn. „Safnið er vís­inda­safn og sýn­un­um er raðað í kassa á stærð við skó­kassa svo þau kless­ist ekki. Þau eru skráð í alþjóðleg­an sveppa­gagna­grunn á net­inu, www.gbif.org, þar er hægt að nálg­ast upp­lýs­ing­ar um sveppi úti um all­an heim. Grunn­ur­inn að safn­inu er frá upp úr 1960 þegar Helgi byrjaði að safna svepp­um.

Um 16.000 skráð sýni eru til í safn­inu á Ak­ur­eyri, en sum sýni á enn eft­ir að greina bet­ur og skrá,“ seg­ir Guðríður Gyða, sem seg­ir jafn­framt að þurrkuð sýni geti geymst lengi, jafn­vel ára­tug­um sam­an og nýst við sam­eind­a­rann­sókn­ir. Safnið inni­held­ur fyrst og fremst sveppi sem hafa fund­ist hér­lend­is þó eitt­hvað sé til af er­lend­um sýn­um sem hafa borist safn­inu að gjöf.