Sorpílát í Hallormsstaðaskógi taka málma, pappír, plast og skilagjaldsskyldar umbúðir ásamt tómum ga…
Sorpílát í Hallormsstaðaskógi taka málma, pappír, plast og skilagjaldsskyldar umbúðir ásamt tómum gashylkjum. Einnig eru tunnur fyrir óflokkanlegt sorp. Ljósmynd: Þór Þorfinnsson

Flokkunartunnum hefur verið komið fyrir á tjaldsvæðum Skógræktarinnar í Hallormsstaðaskógi og Vaglaskógi. Fyrstu viðbrögð gesta eru mjög góð og fólk flokkar vel.

Þessi snyrtihús eru í Atlavík í Hallormsstaðaskógi. Þar standa flokkunartunnunar hjá (hægra megin á mynd). Ljósmynd: Pétur HalldórssonSorpflokkun er liður í þeirri viðleitni Skóg­ræktar­inn­ar að taka framförum í umhverfismálum. Síðustu misseri hefur verið unnið að því að innleiða svo­kölluð græn skref í ríkis­rekstri í öllum þáttum starfseminnar. Skóg­ræktin rekur tjald­svæði í Hallormsstaða­skógi og Vagla­skógi en í öðrum þjóðskógum þar sem tjaldsvæði eru rekin er reksturinn á annarra vegum. 

Gestir á tjaldsvæðunum í Hall­orms­staða­skógi og Vagla­skógi geta nú flokkað rusl að því marki sem í boði er í hvoru byggðarlagi fyrir sig. Flokkunartunnur eru settar upp við snyrtihúsin á tjaldsvæðunum og ættu ekki að fara fram hjá neinum. Þessi mynd er úr Vaglaskógi.Í Hall­orms­staða­skógi eru ílát fyrir málma, önnur fyrir pappír, pappa og drykkjar­fernur, þriðja gerðin er fyrir plast, í þá fjórðu má setja skilagjalds­skyldar drykkjar­umbúðir og tóm gas­hylki og loks er tunna fyrir óflokkan­legt sorp.

Í Vaglaskógi er svipaða sögu að segja nema hvað flokkunin er heldur ítarlegri. Sérstakar tunnur eru fyrir drykkjar­fernur, þá eru tunnur fyrir pappír og pappa, skila­gjalds­skyldar umbúðir, í þriðju tunnuna má setja bæði málm- og plast­umbúðir. Þá er einnig ílát fyrir notaðar raf­hlöður og loks tunna fyrir óflokkan­legan heimilisúrgang. Hvorki á Hallormsstað né Vöglum er enn í boði að flokka lífrænan úrgang sérstaklega en vonandi verður það fyrr eða síðar.

Gott er að hafa skýrar leiðbeiningar um förgun rusls. Hér er dæmi úr Vaglaskógi. Ljósmynd: Pétur HalldórssonAð sögn skógarvarðanna hafa gestir tekið vel í flokk­unina og flestir standa sig vel í að flokka enda leið­beiningar skýrar, bæði á ensku og íslensku. Enn eru þó margir sem fleygja öllu óflokkuðu í tunnuna fyrir almennt sorp en duglegastir eru þeir sem búa við góða flokkunarþjónustu heima fyrir.

Skógræktin hyggst halda áfram að taka skref í um­hverfis­málum, á tjald­svæðum ekki síður en á starf­stöðvum stofn­un­arinn­ar. Undan­farin misseri hefur verið unnið að því að inn­leiða svokölluð græn skref í ríkis­rekstri hjá Skóg­ræktinni og hafa nú allar starf­stöðvar náð fyrsta skrefinu.

Tjaldsvæði í þjóðskógunum

Texti: Pétur Halldórsson