Bygging Haltia-náttúrumiðstöðvarinnar í Espoo, nágrannaborg Helsinki.
Bygging Haltia-náttúrumiðstöðvarinnar í Espoo, nágrannaborg Helsinki.

Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin í samvinnu vegna timburreglugerðar ESB

Hús finnsku náttúrumiðstöðvarinnar Haltia í Espoo er fyrsta opinbera byggingin þar í landi sem reist er úr unnum gegnheilum viði. Allt nema grunnurinn og kjallarinn er smíðað eingöngu úr timbri. Húsið hannaði Rainer Mahlamäki. Markmið Haltia er að fara fyrir með góðu fordæmi, vera flaggskip viðarmannvirkjagerðar og innblástur byggingariðnaðarins í Finnlandi til að auka notkun viðar við smíði bæði opinberra bygginga og fjölbýlishúsa. Íslenskir fulltrúar sitja þessa dagana fund í Finnlandi um samvinnu Norðurlanda og Eystrasaltsríkja við eftirlit vegna timburreglugerðar Evrópusambandsins.

Hvers vegna timburhús?

Timburmannvirki eru í eðli sínu visthæf og falla vel að hringferlum náttúrunnar enda er kolefnisfótspor viðar sáralítið miðað við steinsteypu. Haltia-byggingin er jafnvel enn visthæfari en aðrar timburbyggingar því þar er beitt ýmsum nýstárlegum aðferðum og lausnum.


Ytra byrði hússins er úr greni sem mettað hefur verið með kísilefni sem inni­held­ur engin skaðleg efni fyrir umhverfið. Þessi aðferð gefur þó engu minni vörn gegn fúa en við þekkjum úr hefðbundnu gagnvörðu timbri þar sem notuð hafa verið efni eins og kopar og arsen. Auk þess gerir þessi kísilvörn að verkum að  grenið brennur illa. Klæðningin á Haltia-bygg­ing­unni er sú fyrsta í heiminum úr viði gagn­vörð­um með þessum visthæfa hætti.

Losa minna og binda lengi

Milli 30 og 40 prósent þess koltvísýrings sem mannkynið losar út í andrúms­loft­ið á ári hverju stafa frá byggingariðnaði og öðrum framkvæmdum. Við hvern rúmmetra viðar sem til verður í skógum heimsins binst um það bil eitt tonn af koltvísýringi úr lofthjúpnum. Meira en 1.000 rúmmetrar af greni voru notaðir í burðarvirki Haltia-byggingarinnar sem allt er úr gegnheilu timbri. Með þessu móti varðveitist það kolefni sem bundið er í viðnum mun lengur en það myndi gera í skóginum því hús geta með góðu viðhaldi staðið um aldir. Notkun viðar til mannvirkjagerðar vinnur því gegn auknum koltvísýringi í lofthjúpnum, bæði vegna þess að minna losnar af koltvísýringi við smíði timburhúsa en steinsteyptra og vegna þess að timbrið í húsinu hefur bundið í sér koltvísýring úr andrúmsloftinu.

Burðarvirki bygginarinnar er sett saman úr tilbúnum tilbúnum CLT-límtrésbitum eftir ákveðnu kerfi sem framleitt er hjá fyrirtækinu Stora Enso Oyj. Þetta kerfi gerir kleift að nýta við í stað steinsteypu sem burðarefni í veggi, milligólf og þak og engin þörf er fyrir innri burðarsúlur eða burðarbita í byggingunni. Þessir CLT-bitar gerðu sömuleiðis að verkum að innanhússframkvæmdir gátu hafist mjög snemma á byggingartímanum enda var þetta stóra hús tilbúið á hálfu öðru ári.

Samvinna Norðurlanda og Eystrasaltsríkja
um timburreglugerð ESB

Nokkrir Íslendingar sitja þessa dagana fund í Finnlandi á vegum norræna verkefnisins „Nordic Baltic EUTR“. Markmið þess er að styrkja og samræma samvinnu Norðurlanda og Eystrasaltsríkja um eftirlit vegna EUTR, timburreglugerðar Evrópu­sambands­ins. Fulltrúar skógræktar á Íslandi eru þær Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, framkvæmdastjóri Vestur­lands­skóga, og Edda Sigurdís Oddsdóttir, sérfræðingur á Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá. Fyrir hönd Mann­virkja­stofn­un­ar sitja fundinn þau Jón Guðmundsson, Valdimar Gunnarsson og Inga Þórey Óskarsdóttir.


Timburreglugerð Evrópusambandsins er ætlað að koma í veg fyrir að vörur unnar úr ólöglega höggnu timbri verði settar á mark­að í Evrópu. Ólöglega höggvið timbur telst vera það sem höggvið er í andstöðu við löggjöf þess lands þar sem skógarhöggið á sér stað. Það gæti t.d. verið vegna þess að skógarhögg er framkvæmt í leyfisleysi eða í andstöðu við umhverfisleg sjónarmið. Samkvæmt EES-samningnum ber Ís­lend­ing­um að fylgja þessari reglugerð. Fyrir Alþingi liggur nú lagafrumvarp sem inn­leiðir reglugerðina, og er frestur til 14. júní til að skila athugasemdum við frumvarpið.

Á fundinum hafa fulltrúar þeirra stofnana sem sjá um eftirlit með innflutningi og sölu timburafurða borið saman bækur sínar og samræmt vinnulag. Að sögn Eddu hefur fundurinn verið afskaplega gagnlegur fyrir íslensku fulltrúana sem búa sig undir að sinna sambærilegu eftirliti hér á landi. Haltia-byggingin var skoðuð í tengslum við fundinn og tók Edda myndirnar sem hér fylgja.


Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Edda S. Oddsdóttir