Fyrirhuguð 40 hæða timburbygging, The Earth Tower, í Vancouver-borg í Kanada. Hún verður hæsta timbu…
Fyrirhuguð 40 hæða timburbygging, The Earth Tower, í Vancouver-borg í Kanada. Hún verður hæsta timburmannvirki í heimi ef af verður. En kannski ekki lengi. Ljósmynd frá Delta Group og Perkins+Will

Kanadamenn hyggjast hrifsa af Norðmönnum heimsmeistaratitilinn í smíði háhýsa úr timbri því nú eru áform uppi í Vancouver-borg að reisa háhýsi úr krosslímdum timbureiningum sem verði fjörutíu hæðir og þar með hæsta timburbygging í heimi. Um 200 íbúðir verða í byggingunni og útigarður með gróðri fyrir hverjar þrjár hæðir.  Ekki er þó víst að Kanadamenn haldi forystunni lengi því Japanar líta enn hærra.

Hið 18 hæða Brock Commons háhýsi í Vancouver var ódýrara, reis hraðar og hafði minni umhverfisáhrif en sambærileg bygging úr stáli og steinsteypu. Ljósmynd frá háskólanum í Bresku-KólumbíuSkógar Bresku-Kólumbíu eru mikil auðlind og til hennar er nú horft vestra í æ ríkari mæli í stað mengandi stáls og steinsteypu. Við vesturströndina vaxa stórvaxnar trjátegundir á borð við sitkagreni og degli sem ná allt að sextíu metra hæð. Báðar þessar tegundir gefa sérstaklega góðan við til húsbygginga. Sitkagreni er eitthvert léttasta byggingarefni sem völ er á miðað við styrk og degliviður, á ensku kallaður Oregon Pine, er bæði sterkur viður, endingargóður og verpist sáralítið. En tekst Kanadamönnum að vernda frumskóga sína og beina nýtingunni eingöngu að ræktuðum, sjálfbærum nytjaskógum?

Vaxandi notkun á KLT

Notkun svokallaðra krosslímdra eininga (KLT-eininga) í húsbyggingar vex nú hratt víða um heim og ekki síst á skóglendum svæðum eins og í Bresku-Kólumbíu. Auk lágreistra húsa hafa þar risið æ hærri og umfangsmeiri byggingar úr þessu örugga og visthæfa efni. Frægast er líklega Brock Commons háhýsið í Vancouver sem vakti athygli því það reis hraðar, var ódýrara og hafði mun minni umhverfisáhrif en sambærilegar byggingar úr stáli og steinsteypu. Þetta var hæsta timburbygging heims um hríð en nú eiga Norðmenn metið eftir að smíði Mjøstårnet í Brumunddal lauk á síðasta ári.

Meðal arkitekta, skógfræðinga og verkfræðinga í Vancouver heyrast nú æ háværari raddir um að  kominn sé tími til að nota krosslímdar einingar í skýjakljúfa borgarinnar. Yfirvöld fylkisins hafa nú breytt byggingareglugerðum og tvöfaldað hámarkshæð timburbygginga upp í tólf hæðir. Brooks Commons byggingin, sem er átján hæðir, var reist með undanþágu. Búist er við því að ríkisstjórn Kanada innleiði tólf hæða hámarkið í öllu landinu.

Jarðarturn Kanada

En í Vancouver líta menn enn hærra þrátt fyrir gildandi reglugerðir og þar hafa verið kynntar hugmyndir um timburskýjakljúf sem kallaður er Canada Earth Tower, jarðarturn Kanada. Þar er stefnt að fjörutíu hæða byggingu sem yrði hæsta timburbygging í heimi og um leið svokallað núllorkuhús sem framleiddi sína eigin orku með sólarsellum. Þar yrðu um 200 íbúðir og gert er ráð fyrir að útigarður með gróðri verði með jöfnu millibili upp alla bygginguna, einn fyrir hverjar þrjár hæðir. Sömuleiðis verði fyrsta flokks skrifstofurými í byggingunni og verslanir.

Vaxandi áhugi á timbri sem byggingarefni sést vel á þeim opinberu tölum sem sýna að nærri 500 timburblokkir eru nú í smíðum vítt og breitt um Kanada.

Hér má sjá hvernig umhorfs gæti orðið í fyrsta borgarhverfinu í heiminum þar sem timbur verður meginbyggingarefnið, ef af framkvæmdunum verður. Ljósmynd frá Heatherwick StudioBreska blaðið The Guardian fjallar um þessa þróun hjá Kanadamönnum og hefur eftir Michael Green, arkitekt í Vancouver, sem mjög hefur talað fyrir timburbyggingum, að víða um heim hafi undanfarið verið slakað á reglum um hæð timburbygginga. Bandaríkin hafi til að mynda farið að dæmi Kanadamanna og það hafi Kína gert sömuleiðis.

Átök nýtingar og verndar

En sú gnægð trjáviðar sem er að finna í kanadísku skógunum hefur líka mikið að segja um það hversu hratt þessi mál þróast nú þar í landi. Meðal kanadískra stjórnmálamanna eru margir sem vilja að Kanada verði öðrum þjóðum fyrirmynd um hvernig breyta megi um hátt í húsagerð. Í Kanada eru nærri 350 milljónir hektara af skógi og langstærsti hlutinn af nytjuðum skógi er í Bresku-Kólumbíu. Þar hafa reyndar líka tekist mjög á sjónarmið þeirra sem vilja nytja skóginn á sjálfbæran hátt og hinna sem vilja vernda frumskóga með gömlum risatrjám þar sem aldrei hefur verið nytjað.

Og vissulega eru timburfyrirtæki enn að gjörfella skóg á svæðum sem talin eru hafa að geyma mikilvæg vistkerfi með mörg hundruð ára gömlum risatrjám. Timbrið úr slíkum trjám er eftirsótt og hefur hingað til gefið mest í aðra hönd á timburmarkaðnum enda mjög sterkt efni og fallegur viður. Meira en helmingurinn af þeim 3,2 milljónum hektara ósnortins skógar sem er að finna í Bresku-Kólumbíu hefur að vísu verið friðaður en afgangurinn, um 1,42 milljónir hektara, gæti á endanum orðið keðjusöginni að bráð og gegn því er nú barist. Í þessum skógum standa geysistórir risalífviðir, þinir og grenitré. Hingað til hafa yfirvöld í fylkinu ekki tekið vel í þá tillögu verndarfólks að allt skógarhögg á þessum svæðum verði stöðvað þar til kveðið hafi verið upp úr um hvað skuli friðað varanlega.

The Guardian hefur eftir Jens Weiting frá samtökunum Sierra Club að þarna sé komið upp vistkerfislegt neyðarástand á stórum svæðum í Bresku-Kólumbíu. Hann segir að gjörfelling frumskóga ýti undir aukna hættu á gróðureldum og með því að höggva þessa stórvöxnu skóga hverfi hluti af öflugustu kolefnishít landsins um leið og tæmd sé auðlind sem taki mannsaldra að ná til baka.

En timbrið í stórhýsin sem arkitektar vestra vilja nú að rísi í Vancouver-borg og víðar á ekki að sækja í forna frumskóga landsins. Í krosslímdu stoðirnar og flekana sem þessar byggingar verða reistar úr þarf ekki að nota svera boli. Þá má framleiða úr grönnu efni úr yngri ræktuðum skógum. Og límingartæknin gerir að verkum að eiginleikar KLT-eininganna verða alls ekki síðri en timbursins úr risatrjánum, styrkur og stöðugleiki, og umhverfisáhrifin aðeins brot af því sem yrði með því að höggva frumskóginn.

John Innes, deildarforseti skógfræðideildarinnar við háskólann í Bresku-Kólumbíu, segir í samtali við The Guardian að mikill hluti af timbrinu sem tekið er úr frumskógunum sé hvort sem er sagað niður í granna planka og borð sem auðveldlega megi sækja í aðra skóga. Unnar viðareiningar á borð við KLT, krosslímdar timbureiningar, geti því einmitt stuðlað að því að minni ásókn verði í að höggva gömlu trén.

Í sama streng taka bæði fulltrúar áðurnefndra samtaka, Sierra Club, og Ancient Forest Alliance, sem einnig berjast gegn eyðingu frumskóganna. Sjálfbær nýting yngri ræktaðra skóga stuðli að því að vernda megi frumskógana.

Japanar horfa enn hærra en Kanadamenn og hafa sett fram hugmyndir um smíði 70 hæða timburháhýsis í Tókíó, þótt hvergi sé meiri hætta af jarðskjálftum í nokkurri stórborg en þar. Ljósmynd frá Sumitomo Forestry CoFyrsta byltingin í heila öld

Algengur misskilningur er að timbur sé bæði eldfimt og veikt byggingarefni. Ef rétt er að staðið gefur timbur færi á mikilli nýsköpun í smíði rammgerðra bygginga. Krosslímdar timbureiningar, KLT-einingar, eru gerðar úr mörgum lögum af timbri sem lögð eru á víxl. Þannig næst hámarksstyrkur og einingarnar halda lögun sinni fullkomlega. Og jafnvel þótt Kanadamönnum kunni að takast að ná heimsmeistaratitlinum í gerð timburháhýsa er ekki víst að þeir haldi honum lengi því víðar eru menn á sömu buxunum. Samsteypan Sumitomo Group í Japan hefur lýst áformum um að reisa 70 hæða skýjakljúf úr KLT-einingum í höfuðborg Japans, Tókíó. Og í því sambandi er rétt að benda á að hvergi í stórborgum heimsins er meiri hætta á öflugum jarðskjálftum.

KLT-einingar voru fyrst kynntar til sögunnar í Austurríki og Þýskalandi í kringum 1990 og hafa mikið verið notaðar í Evrópu allar götur síðan. Segja má að þessar einingar séu nokkurs konar afsprengi límtrésbita sem hafa verið notaðir enn lengur, aðallega sem burðarbitar í þök stærri bygginga. Vestan hafs hafa yfirvöld hins vegar verið treg til að breyta reglugerðum og leyfa KLT-einingar. Þess vegna er það fyrst nú sem þær eru að ryðja sér þar til rúms í takti við auknar kröfur um visthæfar byggingaraðferðir. Kanadamenn virðast nú ætla að vinna upp forskot Evrópumanna með tilslökunum á reglum. Milljónir dollara hafa verið settar í rannsóknir á vegum skógariðnaðarins og háskólastofnana sem vinna nú að því að þróa til fulls tækni og notkunarmöguleika timburs í húsbyggingar.

Arkitektinn áðurnefndi, Michael Green, segir í grein The Guardian að þetta sé í fyrsta skipti í heila öld sem ný aðferð við gerð skýjakljúfa komi fram á sjónarsviðið, með öðrum orðum fyrsta byltingin í heila öld á þessum vettvangi. Fyrirtæki hans lauk nýlega við smíði T3-byggingarinnar í Minneapolis í Bandaríkjunum sem er timburhús á sjö hæðum, og hefur kynnt teikningar að fleiri háreistum timburhúsum í Toronto í Kanada. Green segir að þessi nýjung gangi gegn ótalmörgum hefðum í byggingariðnaðinum.

Þetta huggulega umhverfi sjá Japanar fyrir sér að gæti orðið innan dyra í 70 hæða timburháhýsinu. Ljósmynd frá Sumitomo Forestry CoEn hefðir eru eitt, staðreyndir annað. Timbur er léttara en stál og steinsteypa og unnar einingar á borð við KLT-einingar hafa jafnframt í för með sér miklu minni umhverfisáhrif. Af öllum útblæstri gróðurhúsalofttegunda í heiminum má rekja um 8% til notkunar á steinsteypu.

Þá hefur The Guardian eftir öðrum kanadískum arkitekt, Jonathan King, að þessi nýi byggingamáti beri fleira með sér. Þær megi reisa með þeim hætti að timbrið geti notið sín innan húss í veggjum, gólfum og loftum bygginganna. Þar með verði þær hlýlegar og notalegar fyrir fólkið sem í þeim býr eða dvelur. Manninum sé eðlislægt að sækja í umhverfi með náttúrlegum efnum.

Fyrirtæki Kings ruddi brautina á vissan hátt með átta hæða skrifstofubyggingu úr timbri sem fullgerð var í júnímánuði á þessu ári og hlotið hefur lof og prís. Fagnaðarlætin hafa ekki verið jafnmikil við öllum hugmyndum í þessa átt. Fyrirætlanir Sidewalk Labs, systurfyrirtækis Google, hafa verið nokkuð umdeildar eins og gjarnan verður um stórtækar skipulagshugmyndir. Hjá Sidewalk Labs vilja menn koma upp fyrsta borgarhverfinu í heiminum þar sem timbur er aðalbyggingarefnið. Fyrirtækið vill reisa alls tólf timburbyggingar á bökkum Ontario-vatns í miðborg Toronto og þar yrðu hæstu byggingarnar allt að 35 hæðir.

En hvernig er þetta hægt? John Innes við háskólann í Bresku-Kólumbíu bendir á að húsagerð með KLT-einingum sé álíka einföld og að byggja úr legókubbum. Smíði háhýsa úr timbri séu þó ekki mikilvægasta hlutverk KLT-eininganna. Háar timburbyggingar eru samt sem áður góð auglýsing fyrir þá möguleika sem þetta nýja byggingarefni gefur. Mestu skipti að KLT-einingar komi í stað stáls og steinsteypu við smíði meðalhárra bygginga enda séu þær mun algengari en skýjakljúfar. Þar verði áhrif breytingarinnar mest.

Tilbúin mynd af mögulegri sýn til timburháhýsahverfis sem mögulega gæti risið á bökkum Ontario-vatns í borginni Toronto. Ljósmynd frá Heatherwick Studio

Og vissulega er það einmitt á þessu sviði sem mest er að gerast þótt hæstu byggingarnar fái mesta umfjöllun. Dæmi um þetta eru verslunarhallir, vöruhús og skemmur sem hingað til hafa að mestu verið reistar úr stáli og steinsteypu með tilheyrandi sóun. Nú líta menn til KLT-eininganna við hönnun slíkra mannvirkja.

Sjálfbærni hvað?

Loks er bent á það í grein The Guardian að lítið vit væri í því að skipta stáli og steinsteypu út fyrir timbur ef ekki væri gætt að viðhaldi auðlindarinnar með sjálfbærum skógarnytjum. Og vissulega hafa menn áhyggjur af miklum skógareldum og skordýrafaröldrum sem leikið hafa skóga grátt víða, ekki síst í Norður-Ameríku. Slíkar hamfarir draga sannarlega úr mögulegu framboði á timbri, eins og John Innes bendir á í samtali við The Guardian. Og um leið eykst hættan á því að skógariðnaðurinn þrýsti á undanþágur frá nýtingarkvótum í skógunum. Verði ekki farið að með gát geti það kastað rýrð á sjálfbærniímynd skógargeirans í Kanada.

Raunar segir John Innes að eiginlega sé ekkert til sem heiti algjörlega sjálfbærar byggingar. Allar byggingar taki einhvers staðar sinn toll. Sjálfbærar nytjar skóganna þýði væntanlega að kostnaður aukist við öflun timbursins og þar með hækkar kostnaður húsbyggjenda og kaupenda. Samt sem áður líti margir svo á í Bresku-Kólumbíu, að í landinu þar sem risarnir standa - og munu standa - séu þetta byrðar sem sjálfsagt mál sé að taka á sínar herðar.

Texti: Pétur Halldórsson