Verður eyðing regnskóganna loksins stöðvuð?

Jafnvel þótt mörgum þyki árangur loftslagsráðstefnunnar í Varsjá í Póllandi heldur lítill er vert að fagna samkomulagi sem þar náðist um að vernda skóglendi í heiminum. Í vikunni ákváðu Noregur, Bretland og Bandaríkin að leggja talsverða fjármuni í sjóð sem vinna á gegn eyðingu regnskóga og hvetja til skógræktar. 

Þjóðirnar sem komu saman í Varsjá urðu ásáttar um að taka mikilvægt skref til að draga úr þeirri losun kolefnis sem verður vegna skógareyðingar í heiminum.  Þróunarríkjum verður greitt fé eftir því hversu vel þau standa sig í þessu efni. Með öðrum orðum verður þessum löndum greitt fyrir að þyrma skógum sínum. Einn viðmælenda breska ríkisútvarpsins BBC tók sem svo til orða að þetta væru stærstu tíðindin frá ráðstefnunni í Varsjá. 

Baráttan gegn skógareyðingu er mikilvægur hluti af baráttunni gegn loftslagsbreytingum því að fimmtung þess kolefnis sem losnar vegna athafna okkar mannanna má rekja til skógareyðingar. Fyrr í vikunni samþykktu þrjár efnaðar þjóðir að leggja umtalsverða fjármuni í sjóð sem verður í umsjón Alþjóðabankans og á að stuðla að sjálfbærari landnýtingu í heiminum. Sjóðurinn heitir BioCarbon Fund. Norðmenn lögðu mest að mörkum, 135 milljónir Bandaríkjadollara, Bretar 125 milljónir og Bandaríkjamenn 25.

Í Varsjá var fallist á nokkrar leiðir sem fara skyldi til að berjast gegn skógareyðingu og hnignun skóga en líka til að vinna að ræktun nýrra skóga. Mikilvægt tæki í þessu starfi er verkefni á vegum Sameinuðu þjóðanna sem kallað er REDD+. Þar er meðal annars markmiðið að gera úr skógunum verðmæti svo að það borgi sig frekar fyrir fátækar þjóðir að vernda skóga sína en eyða þeim. Ríkari þjóðir geta þá bætt upp fyrir mengun sem þær valda með því að leggja fé til verndar skóga og til skógræktar í þriðja heiminum. Í Póllandi var rætt um að vanþróuðum ríkjum sem búa yfir verðmætu skóglendi yrði greitt í hlutfalli við árangur sinn í þessum efnum, hvernig þau stæðu sig í að uppfræða þegna sína og hlúa að þeim samfélögum sem búa á skóglendum svæðum. 

Sjá frétt BBC hér.

Mynd: Wikimedia Commons