Ítarleg stefnumörkun fyrir Þórsmerkursvæðið kynnt

Til kynningar eru hjá Rangárþingi eystra nýjar tillögur að deiliskipulagi á Þórsmörk. Þetta er fyrsta skipulag svæðisins sem sem unnið hefur verið af hálfu skipulagsyfirvalda. Fjallað var um þetta í Morgunblaðinu á laugardaginn var, 7. mars. Björn Jóhann Björnsson blaðamaður skrifaði um málið.

Fram kemur í blaðinu að skipulagstillögurnar nái til þriggja afmarkaðra svæða, Húsadals, Langadals/Slyppugils og Bása, alls um 80 hektara svæðis. Auk skipulagstillagnanna er kynnt ítarleg stefnumörkun fyrir Þórsmerkursvæðið. Blaðið hafði samband við félögin Ferðafélag Íslands og Útivist, sem bæði eru með starfsemi á Þórsmörk, og segir viðbrögð þeirra jákvæð.

Í Húsadal nær deiliskipulagið til um 30 hektara svæðis, auk fyrirhugaðrar göngubrúar yfir Markarfljót og aðkomu að henni. Í Langadal og Slyppugili tekur deiliskipulagið til um 13 hektara en tillagan í Básum í Goðalandi nær yfir um 38 hektara.

Morgunblaðið hefur eftir Antoni Kára Halldórssyni, skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra, að hagsmunaaðilar á Þórsmörk hafi tekið þátt í mótun tillagnanna. Löngu hafi verið tímabært að koma einhverju skipulagi á svæðið til langs tíma. Þeir sem fyrir séu með starfsemi á Þórsmörk fái afmarkaðar lóðir en þegar nýtt deiliskipulag hafi verið samþykkt verði lausar lóðir auglýstar til úthlutunar og umsóknir metnar í samráði við landeigandann sem er ríkissjóður.

Væntanleg göngubrú yfir Markarfljót í Húsadal er talin ein veigamesta breytingin í Þórsmörk á næstu árum. Með henni opnast svæðið fleirum því fólksbílafær heilsársvegur verður að brúnni frá Fljótshlíðarvegi. Haft er eftir Antoni Kára að þegar svæðið opnist fyrir fleira fólki verði menn að vera undir það búnir að taka á móti því fólki sem kemur

Skúli Skúlason, framkvæmdastjóri Útivistar, segir í samtali við Morgunblaðið að skortur á samþykktu skipulagi hafi hamlað því að hægt væri að móta stefnu til langs tíma á svæðinu. Á honum er að skilja að Útivist sé mjög sátt við allt ferlið og hafi fengið í gegn þær breytingar sem þau vildu sjá. Félagið leggi þó mikla áherslu á að yfirbragð öræfanna haldist í Þórsmörk, þar sem einfaldleikinn verði hafður að leiðarljósi og öll mannvirki falli vel að umhverfinu.

Svipaða sögu segir Ólafur Örn Haraldsson, forseti Ferðafélags íslands, sem segir félagið hafa þrýst á um deiliskipulag á fleiri svæðum á hálendinu, eins og í Landmannalaugum. Ólafur Örn gerir ráð fyrir uppbyggingu í Langadal á náttúrulegum forsendum, með kyrrðina í huga, og þar verði ekki endilega sóst eftir miklum fjölda ferðamanna. í Húsadal megi búast við meiri umferð, umfangsmeiri uppbyggingu og hærra þjónustustigi.

Texti: Pétur Halldórsson