Vigdís Finnbogadóttir í góðum hópi við gróðursetningu í Vinaskógi árið 2004. Ljósmynd: Þröstur Eyste…
Vigdís Finnbogadóttir í góðum hópi við gróðursetningu í Vinaskógi árið 2004. Ljósmynd: Þröstur Eysteinsson

Skógræktin óskar Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, innilega til hamingju með níræðisafmælið í dag og þakkar mikilvægt framlag hennar til eflingar skógrækt á Íslandi.

Þessi mynd var tekin í morgun á Hallormsstað þar sem flaggað er í tilefni af afmæli Vigdísar Finnbogadóttur. Ljósmynd: Þór ÞorfinnssonVigdísi Finnbogadóttur var ofarlega í huga á forsetatíð sinni að stuðla að skógrækt, landgræðslu og annarri náttúruvernd. Margir minnast þess þegar hún gróðursetti tré hvarvetna sem hún fór um landið en einnig með tignum gestum sínum, meðal annars í Vinalundi á Þingvöllum. Enn heldur hún á loft boðskapnum um mikilvægi skógræktar og trjáa fyrir menn og náttúru. Vigdís hefur verið virkur félagi í skógræktarhreyfingunni um árabil og situr yfirleitt aðalfundi Skógræktarfélags Íslands.

Með einföldum gróðursetningarathöfnum og alþýðlegum málflutningi gerði Vigdís á forsetatíð sinni meira en nokkur annar til að sýna fram á ágæti og mikilvægi skógræktar fyrir land og þjóð. Þetta átti vafalaust talsverðan þátt í þeirri viðhorfsbreytingu sem varð meðal landsmanna til skógræktar á níunda áratug liðinnar aldar. Þá varð það viðurkennt meðal þorra Íslendinga að líklega væri töluvert vit í því að rækta skóg á Íslandi.

Megi merki Vigdísar Finnbogadóttur í skógræktarstarfi á Íslandi haldast sem lengst á lofti og hafi hún mikla þökk fyrir framlag sitt. Skógræktin óskar henni allra heilla.

#takkvigdís

Texti: Pétur Halldórsson