Tekjur af viðarsölu áætlaðar um 200 milljónir króna á síðasta ári

Ágúst Ingi Jónsson blaðamaður fjallar um skógrækt í Baksviði Morgunblaðsins í dag, mánudaginn 30. mars, og tíundar þar sívaxandi afurðir íslenskra skóga og arðinn af þeim. Rætt er við Þröst Eysteinsson, sviðstjóra þjóðskóganna hjá Skógrækt ríkisins, og fram kemur að íslensku skógarnir gefi nú árlega þúsundir rúmmetra af trjáviði og tekjur af viðarsölu hérlendis hafi numið um 200 milljónum króna á síðasta ári. Grein blaðsins er á þessa leið:

Áætlað er að yfir fimm þúsund rúmmetrar af viði úr íslenskum skógum verði seldir á þessu ári. Það er meira en tíföldun á framleiðslunni á tíu árum. Ef aðstæður væru fyrir hendi ætti grisjun að vera á fullu í skógunum þessa dagana, en þar sem víða er snjóþungt er erfitt að komast um skógana. Því hefur minna verið grisjað frá áramótum, en fyrirhugað var.

Skógrækt ríksisins er langstærst í framleiðslunni, en einnig hefur Skógræktarfélag Reyjavíkur unnið að grisjun í Heiðmörk, Skógræktarfélag Eyfirðinga í nágrenni Akureyrar og í fleiri reitum og nokkrir skógarbændur eru farnir að grisja skóga sína, einkum á Héraði. Þröstur  Eysteinsson, sviðsstjóri þjóðskóganna hjá Skógrækt ríkisins, áætlar að í heildina hafi vel á annað hundrað hektara verið grisjað í fyrra.

Í takt við fjölgun ferðamanna

Viðarsala tvö síðustu ár hefur verið um fimm þúsund rúmmetrar og áætlar Þröstur að framleiðslan aukist lítillega á þessu ári. Langstærsti hlutinn fer til Elkem á Grundartanga og segir Þröstur að samningur Skógræktarinnar við Elkem standi að langmestu leyti undir aukningunni síðustu ár. Öðrum framleiðendum stendur til boða að selja í gegnum Skógræktina, sem sér um að ná í timbrið, kurla það og koma til Elkem.

„Veltan hjá Skógrækt ríkisins í fyrra vegna viðarsölu var í kringum 180 milljónir og ég ímynda mér að aðrir hafi selt við fyrir um 20 milljónir króna," segir Þröstur. „Á eftir Elkem er sala á eldiviði og af honum fer langmest á veitingastaði á höfuðborgarsvæðinu.

Mörg veitingahús eru með opna viðarofna fyrir pizzur og þeir eru hagkvæmari í rekstri heldur en rafmagnsofnar. Það er greinilegt að við höfum hagnast á aukinni ferðamennsku og margar flatbökur fara ofan í svanga ferðamenn. Eldiviðarsala hefur aukist hjá okkur ár frá ári um 5-10% undanfarin ár í takt við árlega fjölgun ferðamanna."

Allt þarfir samfélagsins

Spurður um nýtingu viðarins segir Þröstur að tugir rúmmetra fari í borð, planka og girðingastaura, eldiviður mælist í hundruðum rúmmetra og kurlviður og spæni í þúsundum rúmmetra.

Þröstur gefur lítið fyrir að það sé ekki nógu „virðulegt" fyrir tré sem vaxið hefur í áratugi í íslenskum skógi að enda sem kolefnisgjafi í ofnum Elkem eða eldiviður á pizzastað. „Þetta er sama munstur og á skógarnytjum um allan heim," segir Þröstur. „Stærsti einstaki hlutinn fer í einhvers konar orkuframleiðslu og í öðru sæti er nýting í einhvers konar iðnað, þar sem viðurinn er hakkaður niður, en aðeins lítill hluti er sagaður niður í borð og planka.

Það er hugsunarfeill að það sé eitthvað merkilegri notkun á viði að smíða gluggakarma heldur en að elda mat ofan í okkur eða til að búa til kísil fyrir sólarsellur. Þetta eru allt þarfir samfélagsins sem skógarnir eru að uppfylla."

Snjórinn tefur fyrir

Verktakar sjá um grisjun skóganna að stærstum hluta. Einn þeirra flutti sérhæfða skógarhöggsvél inn frá Svíþjóð, en tveir aðrir útbjuggu gröfur sínar með sérstökum fellihausum. Þá vinna verktakar og starfsmenn Skógræktar og skógræktarfélaga við skógarhögg með keðjusagir. Þröstur segir að um 20 ársverk hafi skapast í skógunum síðustu ár og 200 milljóna sala fari að langmestu í vinnulaun. Þröstur segir að ef þessar tekjur hefðu ekki komið til hefði þurft að segja upp fólki eftir niðurskurð frá ríkinu.

Besti tíminn til að grisja skógana er þegar frost er í jörðu og hægt að fara um skógana. I vetur hefur víða snjóað það mikið að erfitt hefur verið að komast um. Því hefur minna verið grisjað til þessa í vetur en oft áður, taki snjóa upp má búast við að mikið verði grisjað í aprílmánuði. Mest var grisjað að Stálpastöðum í Skorradal fram yfir áramót, en svo fluttu menn sig yfir í Haukadal, en þá kyngdi niður snjó og menn urðu að hætta við.

Þá kemur fram í grein Morgunblaðsins að heildarvöxtur íslenskra skóga sé metinn á 10-15 þúsund rúmmetra á ári. „Miðað við það væri auðveldlega hægt að tvöfalda framleiðsluna án þess að ganga á höfuðstólinn. Hins vegar er mikið af skógum enn ungt því mest hefur verið gróðursett síðustu 20 ár og því er ekki komið að grisjun í þeim. Þröstur áætlar að eigi að síður mætti auka framleiðsluna upp í 8-9 þúsund rúmmetra.“ Framleiðsluaukningin frá 2005 er svo tíunduð á þessa leið:

» 2005 – Framleiðslan innan við 500 rúmmetrar, mest arinviður
» 2008 – 6-700 rúmmetrar, enn að mestu selt sem eldiviður
» 2009 – Um 1500 rúmmetrar, farið að nota í auknum mæli sem spæni undir hesta
» 2009 – Tilraunasamningur gerður við Elkem á Grundartanga
og í framhaldinu var gerður samningur til lengri tíma
»2013-15 – 5-6000 rúmmetrar

Heimild: Morgunblaðið