Viðtalið við Aðalstein Sigurgeirsson fagmálastjóra hefst þegar 7.34 mínútur eru liðnar af þættinum.
Viðtalið við Aðalstein Sigurgeirsson fagmálastjóra hefst þegar 7.34 mínútur eru liðnar af þættinum.

Minnst umhverfisáhrif ef jólatréð er úr garðinum en mest ef það er frá Kína

Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar, tekur jólatré sitt úr eigin skógi en á bágt með að velja fallegustu trén til þess. Í Sögum af landi á Rás 1 á sunnudag ræddi hann umhverfisáhrif jólatrjáa og benti á að minnst væru áhrifin ef fólk tæki tréð úr garðinum hjá sér enda sótspor trjánna því stærra því lengra sem þyrfti að flytja það.

Þátturinn var helgaður jólaundirbúningnum að þessu sinni og í viðtalinu var Aðalsteinn meðal spurður um uppruna jólatrjáa. Hann sagði að stundum væri uppruninn rakinn til orða Jeremía spámanns í Biblíunni þar sem vísað er til skurðgoðadýrkunar og minnst á tré. Sá siður að hafa tré hjá sér um jól er gamall og nærtækast að ætla að hann hafi borist hingað um Danmörku og Þýskaland eins og margt annað.

Nú berast einmitt flest lifandi jólatré sem Íslendingar hafa á heimilum sínum frá Danmörku en gervitrén eru yfirleitt framleidd í Kína. Því fleiri sem kílómetrarnir eru því stærra verður sótsporið og við bætast ýmis umhverfisáhrif sem eru af ræktun trjánna í Danmörku og framleiðslu þeirra í Kína svo ekki sé minnst á förgunina. Aðalsteinn bendir á að íslensku trén hafi ekki þessi sömu umhverfisáhrif og þau séu að auki ræktuð án þess að það hafi áhrif á annars konar landnýtingu. Sjálfur segist hann ekki tíma að taka fallegustu trén úr sínum eigin skógi til að nota sem jólatré og er að skilja á honum að tré með misjöfnu vaxtarlagi hafi því ratað heim í stofu hjá honum.

Allt ber semsé að sama brunni með jólatrén. Íslensku trén eru besti kosturinn. Viðtalið við Aðalstein má heyra með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan. Það byrjar þegar 7.34 mínútur eru liðnar af þættinum.


Texti: Pétur Halldórsson