Morgunblaðið fjallar um gæðaprófanir Skógræktarinnar á trjáplöntum

Þegar líða fer að vori gerir Rakel Jónsdóttir skógfræðingur gæðaprófanir á trjáplöntum frá skógarplöntuframleiðendum. Þróttur rótarkerfisins er kannaður og fylgst með því hvort einhverjar skemmdir eru áplöntunum, sjúkdómar eða óværa. Ágúst Ingi Jónsson blaðamaður ræðir við Rakel í Morgun­blað­inu í dag og þar kemur fram að rótarkal sé dulinn óvinur enda hafi ræturnar mun minna frostþol en yfirvöxturinn.

Greinin er á þessa leið:

Annir eru þessar vikurnar í kjallar­anum í Gömlu-Gróðrarstöðinni við Krókeyri á Akureyri. Þar ræður ríkjum Rakel Jónsdóttir skógfræðingur og dagarnir á vormánuðum snúast um að gæðaprófa trjáplöntur frá skógarplöntuframleiðendum. Þær verða gróðursettar á næstunni í skógarreitum skógarbænda og Skógræktarinnar víða um land. Tilgangur gæða­prófana er að reyna að stemma stigu við afföllum í nýgróðursetningum skógarbænda.

Helsta verkefnið er að kanna hvort rótarkerfi plantnanna sé nógu þróttmikið. »Yfirleitt er þetta allt í góðu lagi frá framleiðendum. Þeir ráða þó ekki við veðrið og stundum hefur haustið komið of snemma eða veturinn verið of harður og þá hafa vissulega komið fram gallar í plöntunum,« segir Rakel. Hún tekur þó fram að slíkt sé undan­tekning. Spurð um gæði plantnanna í vor eftir mildan vetur segir Rakel, að þau séu almennt góð.

Staðlaðar aðstæður

Mest er gróðursett af lerki, greni og furu, en einnig birki og eru flest sýnin í gæðaprófununum af þessum teg­und­um. Plönturnar eru yfirleitt ársgamlar þegar þær eru gróðursettar og koma frá fjórum framleiðendum skógarplantna; Sólskógum á Akureyri, Barra á Egilsstöðum, Álmi og Kvistum á Suðurlandi. Í fyrra nam fram­leiðslan rúmlega þremur milljónum plantna, en árið fyrir hrun var framleiðslan tvöfalt meiri eða um sex milljónir plantna.

Þegar plöntur koma til prófunar frá framleiðendum eru þær settar í mold í sérstakt ræktunarborð, svokallað RGC-borð (Root Growth Capacity). Aðferðin sem er notuð er mest notaða aðferðin í heiminum við könnun á gæðum skógarplantna. Ræktunarborðið heldur stöðluðu hitastigi þannig að rótarhiti á plöntunum í borðinu er 20 gráður og lofthita í herberginu er haldið við sama hitastig.

Plöntur í RGC-borðinu í Gömlu-Gróðrarstöðinni. Mynd: Pétur Halldórsson

Ræturnar hafa minna  frostþol

Eftir þriggja vikna ræktunartímabil í borðinu eru plönturnar teknar upp úr moldinni og rætur þeirra taldar. Prufu­ræktunin er við staðlaðar aðstæður, hita og ljós, sem eru nákvæmlega eins frá ári til árs. Þannig sést fljótlega hvort eitthvað er að plöntum í ræktun, hvort rótarkerfið er nægilega þróttmikið og eins hvort breytingar séu á milli ára.

»Við leggjum áherslu á rótarkerfið vegna þess að það hefur miklu minna frostþol heldur en yfirvöxturinn,« segir Rakel. »Hann getur alveg þolað yfir 20 gráða frost, jafnvel 30 gráður, þegar plantan er komin með frostþol. Rótin þolir hinsvegar mun minna frost, yfirleitt ekki nema -10°C. Við náttúrlegar aðstæður einangrar jarð­veg­ur­inn rótarkerfið og lítil hætta er á rótarkali. En þegar plantan er í ræktunarbakka og situr í bakkanum fyrir ofan jarðvegsyfirborð á veturna þá er henni mun hættar við rótarkali.

Ef rótarkerfið hefur kalið mikið getur plantan ekki framleitt rætur og þá er voðinn vís þegar hún er gróðursett að vori. Rótarkal er erfitt að greina nema með þessari aðferð, það er ekki sýnilegt í gróðrarstöðinni að vori rétt áður en plönturnar eru afhentar.

Fylgst með grámyglu

Auk þess að kanna þrótt rótarkerfisins er einnig fylgst með því hvort einhverjar skemmdir eru á plöntunum, sjúk­dómar eða óværa. Rakel segir að rótarkal sé helsta viðfangsefnið og eins hvort grámygla hafi komist í barr því það geti líka haft áhrif á lífsþróttinn. Þetta eftirlit er gert skömmu fyrir gróðursetningu og er liður í því að tryggja skógarbændum gæðaplöntur svo vinna þeirra fari ekki til spillis.

Rakel lauk meistaragráðu í skógfræði frá Landbúnaðarháskólanum í Svíþjóð 2011 þar sem hún lagði áherslu á ræktun og yfirvetrun skógarplantna. Hún situr m.a. í stjórn NordGen Forest, sem er skógarhluti Norrænu erfða­auðlindastofnunarinnar.