Aðalsteinn sýnir nýjan köngul sem þroska mun fræ á næsta ári. Í myndbandinu um söfnun furufræja lýsi…
Aðalsteinn sýnir nýjan köngul sem þroska mun fræ á næsta ári. Í myndbandinu um söfnun furufræja lýsir hann muninum á könglum á mismunandi þroskastigi. Mikilvægt er að safna fræi af nýjum könglum, þeim sem þroska fræ á viðkomandi ári. Skjámynd úr myndbandinu

Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar, leiðbeinir um söfnun, meðhöndlun og sáningu greni- og furufræja í þremur nýjum myndböndum sem Skógræktin hefur gefið út. Nú er mikið fræ á þessum tegundum, einkum sunnan- og vestanlands, og tímabært að safna fræi.

Fræ sem þroskast á greni- og furutrjám á Íslandi eru verðmæt fyrir margra hluta sakir. Þau myndast á trjám sem hafa náð að vaxa upp og þroskast við íslenskar aðstæður en veikari einstaklingar, sem voru síður aðlagaðir aðstæðum hér, hafa flokkast frá. Slík þróun er aðferð náttúrunnar til að viðkomandi tegund komist af á tilteknum stað eða svæði, svokallað náttúruval. Með því að nota fræ af íslenskum greni- og furutrjám er því líklegt að fá megi góðan efnivið til að rækta trjáplöntur til skógræktar í gróðrarstöðvum eða til að sá fræinu beint í jörð.

Best er að safna fræjum þar sem könglar eru á mörgum trjám. Ef svo virðist sem stór hluti trjánna í viðkomandi reit hafi blómgast er það vísbending um að erfðafjölbreytileiki í fræjum trjánna sé mikill og það er líka vísbending um góðan efnivið. Myndböndin þrjú sem nú eru komin út hjá Skógræktinni eru ætluð fagfólki og áhugafólki sem vill tína fræ og leggja sitt af mörkum til eflingar gróðurs á landinu.

Ef fólk hefur áhuga á að tína fræ fyrir Skógræktina sem notuð verða í gróðrarstöðvum, er nauðsynlegt að hafa fyrst samband við Skógræktina og ráðfæra sig um staðarval til frætínslu, því slíkt fræ þarf að velja af kostgæfni, meðal annars með tilliti til uppruna trjánna, með öðrum orðum af hvaða kvæmi trén eru sem tínt verður af.

Í myndbandinu um söfnun fræs af greni fá áhorfendur að sjá muninn á könglum sitkagrenis, sitkabastarðs og rauðgrenis. Gefnar eru hagnýtar leiðbeiningar um söfnun könglanna og meðhöndlun að söfnun lokinni. Einnig gefur myndbandið góða hugmynd um hvernig könglarnir líta út þegar þeir eru tilbúnir til tínslu.

Svipaða sögu er að segja um myndbandið um söfnun á furufræi. Áhorfendur sjá hvernig þekkja má þá köngla sem eru að þroska fræ í ár frá könglum sem þroskuðust í fyrra eða nýjum könglum sem þroska ekki fræ fyrr en á næsta ári. Könglar á stafafuru þurfa nefnilega tvö ár til að þroskast og mikilvægt er að tína réttu könglana. Gefnar eru hagnýtar leiðbeiningar um handtökin við söfnun könglanna og meðhöndlun að söfnun lokinni. Einnig gefur myndbandið góða hugmynd um hvernig könglarnir líta út þegar þeir eru tilbúnir til tínslu.

Þriðja myndbandið fjallar svo um klengingu könglanna, með öðrum orðum hvernig ná megi fræinu úr þeim. Nota má sérstaka þurrkara, bakarofna, ylinn frá miðstöðvarofni eða einfaldlega stofuhita og þolinmæði. Til að opna könglana sem eru tregastir til má nota heitt vatn í stutta stund og þurrka síðan könglana. Aðalsteinn lýsir þessu öllu saman skilmerkilega og sýnir líka hvernig hann sáir fræi barrtrjáa beint í jörð. Þar þarf að huga vel að fræseti og að reyna að hindra að fræið fjúki í burtu eða frostlyfting fyrirkomi trjáplöntunum ungum.

Um gerð myndbandanna sá Hlynur Gauti Sigurðsson. Hlynur skrifar líka grein um þessi mál í Bændablaðið 8. október á blaðsíðu 38 undir fyrirsögninni Peningar sem vaxa á trjánum.

Texti: Pétur Halldórsson