Furuskógum í Evrópu stafar nú bráð hætta af meindýri sem áður hefur valdið hefur miklum skemmdum á furutegundum í Austur-Asíu. Nú þegar hafa hundruð þúsunda trjáa í Portúgal drepist af völdum meindýrsins. Það eru aðallega tvær evrópskar furutegundir sem gætu átt undir högg að sækja ef meindýrið breiðist út, þ.e. miðjarðarhafsstrandfuran (Pinus pinaster) sem vex í Suður-Evrópu og skógarfuran (Pinus sylvestris) en hin síðarnefnda er útbreiddasta furutegund í Evrópu.

Meindýrið fannst fyrst í Setúbalhéraði, sunnan Lissabon í Portúgal, árið 1999 og hafa 340.000 portúgölsk furutré þegar drepist á aðeins tveimur árum. Þráðormurinn dreifist með furubukkum (bjöllum af ættkvíslinni Monochamus). Talið er að meindýrið hafi borist með vörubrettum sem landað var í höfn í nágrenninu. Mjög er óttast að meindýrið berist um furuskóga Evrópu á næstu árum og muni valda þar óbætanlegum skaða á lífríki og skógariðnaði.

Þráðormurinn olli miklu tjóni á síðustu öld í náttúrlegum furuskógum Austur-Asíu og hefur innflutningur á ómeðhöndluðu timbri frá Norður-Ameríku lengi verið bannaður á markaði Asíu og Evrópusambandsins. Þráðormurinn er talinn upprunninn í Norður-Ameríku en þar veldur hann helst usla hjá innfluttum furutegundum. Talið er að þráðormurinn hafi fyrst borist til Japan upp úr aldamótunum 1900. Á árinu 1981 fóru nærri tvær milljónir rúmmetra af timbri forgörðum í japönskum skógum (nærri 10 milljónir trjáa) af völdum þráðormsins. Þessi hrikalegi faraldur hefur breiðst út um alla skóga innlendra furutegunda í Japan. Svæði sem meindýrið hefur lagt undir sig nam þá 650 þús. hekturum, nærri fjórðungi af furuskógum landsins. Síðan hefur það breiðst út meðfram ströndinni og til láglendra svæða inn til landsins.

En stafar íslenskri furu hætta af þessu meindýri? Aðalsteinn Sigurgeirsson, forstöðumaður rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins á Mógilsá, segir ekki ástæðu til að hafa miklar áhyggjur: "Nokkrar líkur eru taldar á því að skógar Norðurlandanna séu móttækilegir fyrir meindýrinu og að þar gæti skógarfuran átt eftir að verða fyrir barðinu á því, þegar og ef það berst þangað. Á Íslandi er hins vegar stafafura (Pinus contorta) uppistaðan í ræktuðum furuskógum á Íslandi. Þótt þráðormurinn eigi sér náttúrleg heimkynni í Norður-Ameríku, eru ekki þekkt dæmi um að stafafura hafi orðið fyrir barðinu á meindýrinu í Kanada, auk þess sem japanska reynslan sýnir að útbreiðsla þess takmarkast af lágum hita. Því eru fremur litlar líkur á því að furuskógar Íslands eigi eftir að verða þessu meindýri að bráð."

 

Hér má sjá furur sem þráðormurinn hefur lagst á.

frett_23092008_2

frett_23092008_3


Allar myndirnar eru frá Forestry Images.