Veggspjald Global Landscapes Forum 2019
Veggspjald Global Landscapes Forum 2019

Útbreiðsla skóga á svæðum sem frumbyggjaþjóðir ráða yfir jókst úr 18,3 prósentum 2002 í 24,1% árið 2017. Skógareyðing er helmingi hægari á svæðum sem eru í eigu heimafólks eða frumbyggja en annars staðar. Þetta er meðal tíu staðreynda um frumbyggjaþjóðir sem vakin er athygli á í tengslum við alþjóðlegu landnýtingarráðstefnuna Global Landscapes Forum 2019.

Ráðstefnan fer fram í Bonn í Þýskalandi 22.-23. júní og að þessu sinni er spurt hvort réttindi séu lausnin á loftlagsvandanum. Litið er til þess hvernig megi ráðast gegn röskun loftslagsins á jörðinni með því að bæta réttindi frumbyggjaþjóða og byggðarlaga fólks. Viðburðurinn fer fram í tengslum við loftslagsráðstefnu undirnefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir vísinda- og tækniráðgjöf, SBSTA 50, sem stendur yfir til 27. júní.

Yfir 1.500 leiðtogar frumbyggjaþjóða hvaðanæva úr heiminum auk vísinda- og stjórnmálafólks, baráttu­fólks, ungmenna, fulltrúa einkageirans, frumkvöðla og fleiri taka þátt í ráðstefnunni.

Þema ráðstefnunnar er réttindi í landslaginu, „Rights in the Landscape“. Rætt verður um aðkallandi mál­efni sem steðja að frumbyggjaþjóðum og unnið verður að alþjóðlegri viðurkenningu á því að einstaklingar í frumbyggjasamfélögum og nærsamfélögum eða heimabyggðum hafi ákveðinn réttindi og lausnir í lofts­lags­vandanum og öðrum sameiginlegum vandamálum. 

Á veggspjaldi sem gefið hefur verið út í ráðstefnubæklingi eru tíundaðar tíu staðreyndir um stöðu frum­byggja­þjóða: 

  1. Fjöldi frumbyggja sé aðeins tæplega 6 prósent mannkyns en um 15% fátækasta fólks heims séu frum­byggjar.

  2. Áætlað sé að frumbyggjaþjóðir eigi eða byggi um fjórðung alls lands í heiminum en á þessu landi sé að finna um 80% allrar líffjölbreytni sem eftir er á jörðinni.

  3. Frumbyggjar búi í um 90 löndum heims, myndi um fimm þúsund menningarsamfélög og tali yfir­gnæf­andi meirihluta hinna 6.700 tungumála sem enn er að finna í heiminum. Hins vegar séu um 2.680 þessara tungumála í útrýmingarhættu. Árið 2019 er ár frumbyggjatungumála hjá SÞ.

  4. Að minnsta kosti 207 umhverfisaðgerðasinnar, þar af nær helmingurinn frumbyggjar, voru myrtir fyrir að verja lönd sín fyrir landspjöllum iðnfyrirtækja árið 2017, fleiri en nokkru sinni fyrr.

  5. Sumar áætlanir benda til að 50 prósentum verndarsvæða í heiminum hafi verið komið upp á hefð­bundnum svæðum frumbyggja. Í Mið-Ameríku eru meira en 90% verndarsvæða á frumbyggjasvæðum.

  6. Frumbyggjar og heimabyggðir sýsla með 300.000 milljónir tonna kolefnis í trjám og jarðvegi. Það er 33 sinnum meira en öll losun vegna orkunotkunar árið 2017.

  7. Skógareyðing er meira en helmingi hægari á svæðum sem eru í eigu heimafólks eða frumbyggja en annars staðar samkvæmt upplýsingum frá alþjóðlegu skógargæslunni Global Forest Watch. Þar sem mannréttindi eru virt er munurinn enn meiri.

  8. Yfirráð fólks á landi sínu fara samt sem áður vaxandi. Útbreiðsla skóga á svæðum sem frum­byggja­þjóð­ir ráða yfir jókst úr 18,3 prósentum 2002 í 24,1% árið 2017.

  9. Gildi staðbundinnar þekkingar nýtur vaxandi viðurkenningar vegna mikilvægis fyrir iðnað, landbúnað og vernd lífverutegunda og landsvæða. Yfirlýsing SÞ um réttindi frumbyggja (UNDRIP) undirstrikar vernd þess réttar frumbyggja að nýta sögulega þekkingu sína.

  10. Sáttmálinn um líffjölbreytni (CBD) viðurkennir einnig sterkt samhengi frumbyggjaþjóða og heima­byggða við lífauðlindir ásamt því gildi sem söguleg þekking getur haft til að vernda vistkerfi sem ógn steðjar að.

Global Landscapes Forum er stærsta þekkingarnet heims um sjálfbæra landnotkun og þróun hennar. Það nær til yfir 250 milljóna manns um allan heim. Markmiðið er að það geti orðið að hreyfingu um eins milljarðs jarðarbúa sem vinni saman að því að taka á loftslagsvandanum og tryggja örugga og sjálfbærari framtíð. Að þessu samstarfi stendur umhverfisstofnun SÞ, Alþjóðabankinn, þýska stjórnin og fleiri. 

Texti: Pétur Halldórsson