Endurmenntun LbhÍ heldur í samstarfi við Skógræktina námskeiðsröð fyrir fólk sem vill verða leiðbeinendur í tálgun og ferskum viðarnytjum. Námskeiðsröðin hefst í febrúar á næsta ári og stendur fram í desember. 

Þessi námskeiðsröð hentar fólki sem vill geta leiðbeint um tálgun, hvort sem það tengist skógartengdu útinámi á öllum skólastigum, í grunnskóla- eða frístundastarfi, náms- og starfsþjálfun, endurhæfingu, sem hluti af dagskrá á skógardegi eða öðrum skógarviðburðum, sem liður í upplifunarfræðslu í skógarumhverfi fyrir ólíka hópa, fyrir almenning sem vill tengja tálgunina lífstílsviðfangsefnum í fjölskyldulífi eða hafa hana sem einstaklingsmiðað tómstundagaman.

Að lokinni námskeiðsröðinni eiga þátttakendur að geta sett upp og leiðbeint á lengri og skemmri námskeiðum og kynningum um tálgun og ferskar viðarnytjar fyrir ólíka aldurshópa og við ólíkar aðstæður úti og inni. Þeir eiga að þekkja algengustu viðartegundir í skógrækt og garðrækt á Íslandi og hvernig nýta má einkenni og eiginleika þeirra í ferskum viðarnytjum. Þeir eiga að geta leiðbeint um notkun á öllum bitáhöldum sem almennt eru notuð í ferskri tálgun, umhirðu þeirra og brýningu. Þeir eiga að geta leiðbeint um sköpun, hönnun, líkamsbeitingu og mikilvægi þess að njóta og komast í samband við viðinn og verkefnin. Þeir eiga að geta leiðbeint á persónulegum forsendum og tengt viðfangsefnin við getu þátttakenda og stutt þá og hvatt í vinnu við fjölbreytt tálguverkefni. Þeir munu læra um mismunandi þurrkaðferðir og yfirborðmeðhöndlun út frá notkun einstakra gripa eða áhalda innan eða utan húss. 

Fyrirkomulag: Námskeiðið nær yfir eitt ár, vorönn, sumarönn og haustönn, og er samtals 81 kennslustundir, auk heimanáms. Námið samsvarar 5 einingum á framhaldsskólastigi. Kennslan fer fram hjá LbhÍ. Tvær námskeiðslotur eru á vorönn og aðrar tvær á haustönn, hvor um sig frá kl. 16-19 á föstudegi og kl. 9-16 á laugardegi. Að auki er ein tveggja daga námskeiðslota að sumri eða snemma hausts, hvor dagur frá kl. 9-16. Auk þess vinna þátttakendur að ýmsum verkefnum heima á milli námskeiðslota. Kennslukerfi LbhÍ verður notað til að halda utan um námskeiðið og koma upplýsingum á milli nemenda og kennara.

Forkröfur: Þátttakendur hafi farið á grunnnámskeið í tálgun.

Kennsla: Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógræktarinnar, og verkefnisstjóri Lesið í skóginn, ásamt fleiri sérfræðingum á þessu sviði.

Tími: Námskeiðsröðin hefst í febrúar 2021 og stendur fram í desember 2021.

Allar nánari upplýsingar