Sólarlag á Sléttu. Mynd: Jónína S. Þorláksdóttir.
Sólarlag á Sléttu. Mynd: Jónína S. Þorláksdóttir.

Rannsóknastöðin Rif auglýsir eftir umsóknum

Auglýst er eftir umsóknum frá áhugasömum vísindamönnum og rannsakendum sem vilja nýta sér aðstöðu Rannsókna­stöðvar­innar Rifs á Melrakkasléttu til verkefna á sviði rannsókna og vöktunar árið 2017.

Rannsóknastöðin Rif er aðili að INTERACT, öflugu samstarfi rannsóknarstöðva á norður­slóðum og hefur verið valin sem ein þriggja stöðva innan samstarfsins til að hefja innleiðingu CBMP-vöktunaráætlunar CAFF, sem er samstarfsvettvangur norður­slóðaríkja um rannsóknir á flóru og fánu heimskautasvæðanna. Markmið stöðvar­innar er meðal annars að efla og auka náttúrurannsóknir og vöktun á Melrakka­sléttu og safna saman og miðla upp­lýs­ing­um um náttúrufar á svæðinu. Að stöð­inni standa sex íslenskar rannsóknar­stofn­an­ir auk sveitar­félags­ins Norður­þings.

Norðurhluti Melrakkasléttu er skilgreindur sem heimskautasvæði og er sagður henta afar vel til rannsóknarstarfsemi sem þessarar. Rannsóknarstöðin hefur jörðina Rif, nyrstu jörð landsins, til umráða sem sérstakt rannsóknarsvæði og náttúran þar býður upp á óþrjótandi möguleika á vöktun og rannsóknum í náttúruvísindum við norður­heim­skauts­­baug, til dæmis á gróðurfari. Sjálf rannsóknarstöðin er á Raufarhöfn og þar er einfalt vinnurými til grunn­vinnslu á sýnum og skrifstofuaðstaða með góðu netsambandi.

Melrakkaslétta er láglend, skammt er til sjávar og landið liggur fyrir opnu hafi. Lágur sumarhiti og raki vegna þoku hefur áhrif á gróðurfar og norrænar plöntutegundir einkenna svæðið. Flétturíkir lyngmóar eru algengir, einkum þegar fjær dregur ströndinni.

Á stórum hluta Melrakkasléttu er lítið jarðvegsrof. Á móbergssvæðinu á vestanverðri Sléttu er hins vegar mikið jarð­vegsrof í kringum Leirhafnarfjöll. Þar er gróðurþekja mjög rofin og stórt svæði skilgreint með talsverðu eða miklu jarðvegsrofi. Syðst í Leirhafnarfjöllum, sunnan Sléttunnar, er virkt landgræðslusvæði. Í Leirhafnarfjöllum finnast nyrstu birkiskógarleifar landsins.

Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu rannsóknastöðvarinnar, undir flipanum umsóknir í valmynd síðunnar, í síma 856 9500 eða á netfanginu rif@nna.is. Verkefnastjóri Rifs er Jónína Sigríður Þorláksdóttir.

Texti: Pétur Halldórsson