Enn er pláss fyrir Íslendinga á tengslamyndunardegi NordGen Forest sem fram fer á Grand Hótel við Sigtún í Reykjavík 19. september. Þar er tækifærið til að þróa draumaverkefnið á sviði skógfræði, læra hvernig sækja skuli um styrki og kynnast nýju rannsóknarfólki í skoðunarferð um íslenska náttúru.

Tilgangur tengslamyndunardagsins (e. Matchmaking Day) er ekki síst að gefa fólki tækifæri til að láta drauma sína rætast um rannsóknir og rannsóknarsamstarf. Þátttakendum verða kynntir ýmsir styrkir sem sækja má um til slíkra verkefna og hvað hafa ber í huga þegar styrkumsóknir eru skrifaðar. Settir verða saman fjölbreyttir vinnuhópar þar sem fólk getur þróað hugmyndir sínar. Tengslamyndunardagurinn, sem líka mætti kalla stefnumótadag, er haldinn í samhengi við ráðstefnuna Future Forest Health – Early detection and mitigation of invasive pests and diseases in Nordic forests. Á ráðstefnunni verður fjallað um heilbrigði skóga á tímum loftslagsbreytinga og ógnir sem steðja að með nýjum sjúkdómum og skaðvöldum

Sérstakur gestur á tengslamyndunardeginum verður dr Hannes Ottósson, verkefnastjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og aðjúnkt við Háskóla Íslands þar sem hann kennir fög um nýsköpun og þróun viðskiptahugmynda. Hann kemur inn á ýmis áhugasvið sem tengjast nýsköpun og frumkvöðlastarfi, félagsauði, félagslegri nýsköpun, klasaskipulagi og menntun í frumkvöðlafræðum. Hannes gefur þátttakendum innsýn í hvernig skapa megi frjótt rannsóknarsamstarf og hvernig fólk getur sjálft náð framförum í slíku samstarfi.

Skoðunarferð

Síðdegis verður farið í hálfsdagsferð um Suðurland þar sem áð verður við Geysi og Gullfoss en einnig staldrað við á nokkrum skógarsvæðum, meðal annars á tilraunareitum þar sem fara fram margvíslegar rannsóknir. Tengslamyndunardeginum lýkur svo með dálitlu hófi í einum af stærstu þjóðskógum Íslands, Haukadalsskógi.

Nánar um tengslamyndunardaginn
Hvenær: 19. september 2019
Kostnaður:  0 kr.
Hvar: Grand Hótel, Sigtúni 38, 105 Reykjavík

Texti: Pétur Halldórsson