Uppgræðslusvæðin á Leiðvelli í Meðallandi voru skoðuð í vikunni og verða væntanlega meðal þeirra svæ…
Uppgræðslusvæðin á Leiðvelli í Meðallandi voru skoðuð í vikunni og verða væntanlega meðal þeirra svæða þar sem Landgræðslan og Skógræktin vinna saman að kolefnisbindingu með skógrækt samkvæmt aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Hafnarsandur í Ölfusi hefur þegar verið tekinn til slíks samstarfs og þar er Sveitarfélagið Ölfus einnig með í gerðum. Á Hafnarsandi gæti tað frá fyrirhuguðu svínabúi komið að góðum notum í ræktunarstarfinu. Ljósmynd: Hreinn Óskarsson

Svo gæti farið að tað frá fyrirhuguðu svínabúi við Þorlákshöfn kæmi að góðum notum við kolefnis­skóg­ræktina sem fram undan er á Hafnarsandi í Ölfusi með samstarfi Skógræktarinnar og Landgræðslunnar.

Á Hafnarsandi verða ræktaðir Þorláksskógar í samstarfi Skógræktarinnar, Landgræðslunnar og Sveitarfélagsins Ölfuss. Tilraunir hafa þegar sýnt að ná má mjög góðum árangri á sandinum. Svínatað til dreifingar á svæðinu yrði þó einnig kærkomin búbót. Ljósmynd: Aðalsteinn SigurgeirssonViðskiptablaðið segir frá því að fyrirtækið Síld og fiskur vilji fá að reisa svínabú fyrir um hálfan milljarð króna vestan við Þorlákshöfn, nálægt iðnaðarsvæði sem þar er nú. Fram kemur að ekki hafi verið tekin ákvörðun en nýlega var greint frá því á fundi skipulags-, bygginga- og umhverfis­nefndar sveitarfélagsins Ölfuss  að fundað yrði með fulltrúum þeirra sem að fram­kvæmd­inni standa um fyrirhugaða uppbyggingu áður en endanleg ákvörðun yrði tekin.

Í Viðskiptablaðinu er rætt við Svein Jónsson, framkvæmdastjóra Síldar og fisks, sem segir málið enn á frumstigi en Þorlákshöfn sé talin hentug staðsetning enda sé sveitarfélagið að fara í stórt skógræktarverkefni og því möguleiki að nýta úrganginn frá svínabúinu til skógræktar. Þarna er án efa átt við samstarfs­verkefni það sem verið hefur í undirbúningi milli Skóg­ræktar­innar, Landgræðslu ríkisins og Sveitarfélagsins Ölfuss um að klæða stóran hluta Hafnarsands skógi á næstu árum.

Fulltrúar Skógræktarinnar og Landgræðslunnar í skoðunarferð á Leiðvelli í Meðallandi 2. október 2018. Ljósmynd: Hreinn ÓskarssonEins og fram hefur komið hafa stjórnvöld falið Skógræktinni og Landgræðslunni mikilvægt hlutverk við kolefnisbindingu í aðgerðaráætlun sinni í loftslagsmálum sem kynnt var nýlega. Þessum stofnunum er ætlað að vinna sam­eigin­lega að því að binda kolefni í gróðri og stöðva kolefnislosun frá auðnum og votlendi. Hafnar­sandur verður ásamt Hólasandi og Hekluskóga­svæðinu fyrsta svæðið þar sem stofnanirnar tvær munu vinna saman að skógrækt.

Fleiri svæði eru til skoðunar svo sem Leiðvöllur í Meðallandi. Þangað fór hópur fulltrúa Skóg­rækt­ar­innar og Landgræðslunnar nú fyrr í vikunni til að skoða aðstæður og meta þá möguleika sem fyrir hendi eru. Fleiri svæði á landinu þar sem Land­græðslan hefur stöðvað eyðingaröflin og komið af stað gróðurframvindu verða væntanlega tekin til skógræktar á komandi árum í samstarfi við Skógræktina. Stofnanirnar tvær vinna nú að því í sameiningu að skipuleggja bindingarverkefni í tengslum við aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum.

Texti: Pétur Halldórsson