Árni Bragason landgræðslustjóri í ræðustól á Fagráðstefnu skógræktar sem Landgræðslan tekur þátt í a…
Árni Bragason landgræðslustjóri í ræðustól á Fagráðstefnu skógræktar sem Landgræðslan tekur þátt í að skipuleggja og halda að þessu sinni. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Við erum mjög rík að handónýtu, rofnu landi á Íslandi, segir Árni Bragason landgræðslustjóri. Búfjárbeit á Íslandi er víða ósjálfbær og það getur ekki talist beitarhæft land þar sem t.d. eru einungis 20% afréttar beitarhæf. Árni spurði hvort pólitískur vilji væri í landinu til þess að stöðva beit á óbeitarhæfum svæðum. Hann biðlar til sveitarfélaga að stöðva framræslu votlendis. Enn sé meira ræst fram en það sem endurheimt er.

Landgræðslustjóri fór í erindi sínu yfir breytingar sem felast í nýsamþykktum landgræðslulögum þar sem hinu forna ítöluhgtaki er snúið á þann veg að í stað þess að ítala sé ákvörðuð þannig að fullskipað sé í landið en ekki ofskipað miðað við beitarþol þá skuli byggt á viðmiðum um sjálfbæra landnýtingu skv. 11. gr. landgræðslulaga.

Árni sýndi nýtt skipurit Landgræðslunnar og fór yfir þær breytingar sem hafa verið gerðar á skipulagi stofnunarinnar, meðal annars með stofnun fagráðs tíu starfsmanna frá öllum sviðum Landgræðslunnar, auk landgræðslustjóra.

Árni segir mikilvægt að beita öllum tiltækum ráðum, til dæmis öllum samstarfsverkefnum sem eru í gangi, meðal annars með bændum. Þó verði að taka tillit til þess að tíma taki fyrir menn að búa sig þeim tækjum sem nauðsynleg eru til starfans. Tiltækir séu nú þegar um 210 þúsund hektarar af friðuðum svæðum sem vinna megi á.

Víða er einnig unnið á svæðum sem enn eru beitt og verður áfram. Árni reifaði þó þá hugmynd að hækka mætti styrkhlutfall til verkefna sem fara fram áfriðuðum svæðum. Í því fælist að umbun fyrir landbótastarf á friðuðum svæðum yrði meiri en fyrir verkefni á svæðum sem enn eru beitt. Það hvetur þar með til friðunar viðkvæmustu svæðanna.

Árni minntist líka á endurheimt votlendis og sagði dapurlegt að á þeim tíma sem Landgræðslan hefur unnið að endurheimt votlendis hefði meira land verið ræst fram en það sem endurheimt hefur verið. Hann átelur sveitarfélög fyrir aðgerðaleysi í þessum efnum. Sveitarfélög hafi verið upplýst um það hlutverk sitt að sjá til þess að mokað sé ofan í alla þá skurði sem hafi verið grafnir í óleyfi.

Árni vék að lokum aftur að beitarmálum og nefndi illa farnar afréttir svo sem Bárðdælaafrétt og Biskupstungnaafrétt sem væru í raun óbeitarhæfar. Hann spurði hvort pólitískur vilji væri til að stöðva beit á slíkum svæðum.

Texti: Pétur Halldórsson