Úr Símonarskógi. Ljósmynd: Hreinn Óskarsson
Úr Símonarskógi. Ljósmynd: Hreinn Óskarsson

Skógræktin hefur gert samstarfssamning við Súrefni, ungt sprotafyrirtæki sem býður fólki og fyrirtækjum að gróðursetja tré til kolefnisbindingar. Fyrsti Súrefnisskógurinn verður í Símonarskógi á Markarfljótsarum en einnig hefur verið tekið frá svæði fyrir Súrefni á Tumastöðum í Fljótshlíð.

Súrefni hóf formlega starfsemi sína í júní á þessu ári og hugmyndafræði fyrirtækisins er að til þess að bjarga heiminum þurfi að vinna skref fyrir skref eða stein fyrir stein líkt og píramídarnir voru reistir. Í tilfelli Súrefnis er þetta „tré fyrir tré“ til að vinna gegn loftslagsbreytingunum. Á vef Súrefnis, surefni.is, er hægt að kaupa stök tré sem síðan verða gróðursett gegnum samning við Skógræktina. Súrefni býður annars vegar leiðir fyrir einstaklinga og hins vegar fyrirtæki. Nú þegar hafa verið gerðir samningar við íslensk fyrirtæki um milligöngu Súrefnis um kolefnisbindingu á móti losun viðkomandi fyrirtækja.

Í Símonarskógi verður fyrsti „Súrefnisskógurinn“ og þar verður ræktuð alaskaösp á a.m.k. 20 hekturum lands og sennilega nokkru meira. Eftir er að kortleggja, mæla nákvæmlega hversu stórt svæði er þar til taks og vinna ræktunaráætlun. Símonarskógur er nýjasti þjóðskógur landsins, skógur sem Símon Oddgeirsson í Dalsseli undir Eyjafjöllum færði Skógræktinni að gjöf árið 2018. Símon lést í hárri elli á síðasta ári en Símonarskógur er við þjóðveg 1 rétt vestan Markarfljóts. Samstarf Skógræktarinnar við Súrefni hjálpar til við að ljúka verki Símonar með myndarlegum hætti.

Þegar fullgróðursett verður í Símonarskóg verður haldið áfram gróðursetningu fyrir Súrefni á svæði neðan vegar á Tumastöðum í Fljótshlíð þar sem eru í það minnsta 30 hektarar, hentugir fyrir alaskaösp. Öspin er valin vegna þess að hún gefur mesta og hraðasta bindingu. Á báðum þessum stöðum er gott aðgengi og auðvelt að benda viðskiptavinum Súrefnis á skóginn þar sem kolefnið er bundið fyrir þá.

Samkvæmt samningi Skógræktarinnar og Súrefnis skal skógurinn standa í að minnsta kosti 50 ár en í öllum áætlunum Skógræktarinnar er gert ráð fyrir að skógur verði til frambúðar þar sem hann er á annað borð ræktaður, hvort sem það er skógur sömu tegundar eða hvort aðrar tegundir taka við þegar skógur er endurnýjaður. Verkefni Súrefnis verða skráð í Loftslagsskrá og stefnt er að því að úr þeim verði til vottaðar kolefniseiningar.

Texti: Pétur Halldórsson