Þröstur Eysteinsson, Rúnar Ísleifsson og Lárus Heiðarsson, virða fyrir sér ummerkin eftir snjóflóðið…
Þröstur Eysteinsson, Rúnar Ísleifsson og Lárus Heiðarsson, virða fyrir sér ummerkin eftir snjóflóðið í Þórðarstaðaskógi í vetur.

Grisjun umfangsmikil í umdæmi skógarvarðarins á Vöglum

Annatími er á sumrin hjá skógarvarðarumdæmunum fjórum, á Hallormsstað, í Gunnarsholti, Skorradal og á Vöglum. Vefurinn skogur.is hafði samband við skógarverðina og spurði þá fregna um helstu verkefni sumarsins. Fyrstur til svara varð Rúnar Ísleifsson, skógarvörður á Vöglum.

Af verkefnum sumarsins á svæði sínu nefnir Rúnar fyrst að nú sé verið að skipta um jarðveg á hlaðinu við skemmuna á Vöglum og gróðurhúsin sem þar eru. Í tengslum við þetta var gamla viðarskýlið rifið sem orðið var mjög fúið og lélegt. Erfitt hefur verið að athafna sig þarna í bleytutíð vegna aurbleytu og því var ákveðið að taka efsta lagið af og setja nýja möl í staðinn.

Síðustu daga hefur Rúnar verið að koma sér fyrir í skógarvarðarhúsinu á Vöglum ásamt fjölskyldu sinni en hann tók við embætti skógarvarðar af Sigurði Skúlasyni síðla vetrar. Áður en hægt var að flytja inn þurfti að ráðast í viðhald og endurbætur á húsinu sem orðið er hálfrar aldar gamalt. Því verki er nú að mestu lokið.

Að sögn Rúnars fer í sumar fer fram umfangsmikil grisjun í Vaglaskógi og verður verkið að mestu unnið með grisjunarvél Kristjáns Más Magnússonar skógverktaka. Vélin er nú að störfum í skóginum og verður fram eftir júlímánuði. Grisjuð verður stafafura, lerki og einnig rauðgreni. Nú þegar er búið að fella um 500 rúmmetra af trjáviði, aðallega stafafuru og lerki. Ætlunin er að fella um 500 rúmmetra í viðbót og hluti þess verður hálfrar aldar gömul stafafura sem féll í snjóflóði í Þórðarstaðaskógi í vetur.

Þá er líka fyrirhuguð slóðagerð í skóginum á Vöglum á Þelamörk. Rúnar segir að væntanlega verði ráðist í það verk  seinni hluta ágústmánaðar. Af öðrum verkefnum nefnir hann hefðbundna grisjun á birki til arinviðarframleiðslu. Þetta er snar þáttur í starfsemi embættisins á Vöglum enda mikill birkiskógur í Fnjóskadal og eldiviðurinn þaðan eftirsóttur. Á sumrin þarf að ná að mestu leyti inn þeim birgðum sem duga eiga í eldiviðarsölunni næsta vetur. 

Viðhald girðinga er stór þáttur í starfseminni enda eru umsjónarsvæði Skógræktar ríkisins mörg á Norðurlandi. Girðingavinnu er að mestu lokið í ár en þó þarf sums staðar að búa girðingar undir veturinn, sums staðar með því að leggja þær niður og jafnvel fjarlægja þær alveg í mestu snjóflóðagiljunum. Þetta gildir meðal annars um Þórðarstaðaskóg þar sem snjóflóðið féll á furuskóginn í vetur.

Í júnímánuði voru gróðursettar rúmlega 50 þúsund trjáplöntur í landi Belgsár innan við Þórðarstaði í Fnjóskadal. Samhliða var dreift áburði á plönturnar og gerðir slóðar þannig að fært yrði um svæðið. Þessi skógrækt er samstarfsverkefni Skógræktar ríkisins og Landsvirkjunar samkvæmt sérstökum samningi um kolefnisbindingu. Með þessu leitast Landsvirkjun við að binda eitthvað af því kolefni sem losnar vegna starfsemi fyrirtækisins.

Fræræktina á Vöglum segir Rúnar vera með hefðbundnu sniði en verulegur tími fari í umhirðu frætrjáanna, aðallega fyrri hluta sumars, þannig þrif þeirra verði með eðlilegum hætti. Fræuppskera lerkis verður lítil í haust í fræhúsinu stóra, segir hann, enda var hún óvenju mikil síðastliðið haust. Uppskeran af birkinu verður hins vegar eitthvað skárri.

Á útivistarsvæðum, hjólhýsasvæðum og tjaldsvæðum í umdæminu verða engar stórframkvæmdir í sumar, segir Rúnar, þótt alltaf sé nokkuð mikið verk að sinna hefðbundnu viðhaldi á svæðunum.

Aðspurður um hvernig skógarnir norðanlands þrífist þetta sumarið segir Rúnar að þeir líti mjög vel út þessa dagana enda tíðarfar verið með eindæmum gott í júnímánuði. Síðan hafi komið góður skammtur af úrkomu síðustu daga þannig að ef hlýnar á næstu dögum líti þetta allt mjög vel út. Lítið beri á skaðvöldum í skógi en það eigi þó eftir að kanna betur.

Hjá Skógrækt ríkisins á Vöglum starfa nú yfir sumartímann 10 manns að meðtöldum skógar- og aðstoðarskógarverði. Mannskapur mætti vera meiri enda verkefnin mörg sem þarf að sinna svo vel sé, segir Rúnar Ísleifsson skógarvörður.


Texti og myndir: Pétur Halldórsson

Séð til Þórðarstaðaskógar. Hægra megin á myndinni sést furuskógurinn
sem snjóflóðið skemmdi. Dökku blettirnir í birkiskóginum fyrir ofan eru
svæði þar sem snjór er nýfarinn. Mikið fannfergi var í Fnjóskadal í vetur


Hér sést hvernig trén hafa kubbast sundur í flóðinu