Ummerki birkikembu á birkitré. Ljósmynd: Edda S. Oddsdóttir
Ummerki birkikembu á birkitré. Ljósmynd: Edda S. Oddsdóttir

Hreinn Óskarsson, sviðstjóri þjóðskógasviðs Skógræktarinnar, segir að sú aðferðafræði sem unnið er eftir í Hekluskógaverkefninu sé farin að sanna sig. Birki er gróðursett í bletti svo það geti sáð sér út af sjálfsdáðum. Sjálfsáning er þegar hafin frá lundum sem komnir eru vel á legg. Hreinn býst við að nýir skaðvaldar sem nú herja á birki og fleiri tegundir muni missa þróttinn með tímanum, meðal annars þegar óvinir þeirra taka að herja á þá.

Rætt var við Hrein um vöxt og viðgang í skógum landsins í Morgunblaðinu 20. júlí. Sigurður Bogi Sævarsson ræðir þar við Hrein og viðtalið er á þessa leið:

„Flest í náttúrunni leitar jafnvægis og óværur aðlagast aðstæðum. Lifur sem nú leita á birkið eru vissulega hvimleiðar, hægja á vexti og skaða ásýnd skóganna. En í ljósi reynslu okkar af öðrum plágum tel ég ástæðulaust að hafa miklar áhyggjur af þessum óvelkomna gesti, sem sennilegt er að missi þróttinn þegar fram líða stundir,“ segirHreinn Óskarsson, sviðstjóri hjá Skógræktinni.

Síðustu sumur hefur birkikemba gerst aðsópsmikil á birkitrjám, fyrst á sunnanverðu landinu og nú víðar um landið. Fyrst varð lirfu þessarar vart í Hveragerði árið 2005; en þetta eru agnarsmá fiðrildi sem verpa í laufblöðum og sækja sér í þau næringu. Af þeim sökum verða blöðin brún og uppétin að innanverðu. Birkiþéla sem hagar sér með líku lagi og birkikemban, þó síðar á sumrin, nam svo land fyrir örfáum árum og er ekki síður til ama og skaða, að sögn Hreins.

Lirfur halda lífi yfir vetur

„Mér finnst sennilegast að þessar lífverur hafi hingað komið með innfluttum plöntum, trjákurli eða í gróðurmold. Birkikemban, þélan og aðrar maðkaplágur hafa eflst síðustu árin sem ég tel meða lannars stafa af loftslagsbreytingum. Sumrin eru hlý og veturnir ekki jafn kaldir og áður var. Lirfurnar ná því frekar en ella aðhalda lífi yfir veturinn,“ segir Hreinn og heldur áfram:

„Auðvitað er engin leið að segja neitt til um framhaldið. Mögulegt er að náttúrulegir óvinir úr lífríkinu komi fram og hægi á útbreiðslu og fjölda maðka. Fyrir rúmum áratug gerðu ryðsveppir usla í ösp og gjávíði, sem víða var í skjólbeltum. Víða var gripið til þess að fjarlægja víðinn, en þau belti sem eftir voru losnuðu við sveppinn fyrir löngu og dafna vel. Við skulum því ekki flana að neinu. En vissulega er birkið ljótt á að líta víða núna, svo sem í nágrenni höfuðborgarinnar og víða á suðvesturhorninu, auk þess að ummerki um kembur eru farin að sjást víða, svo sem í Þjórsárdal, Þórsmörk, Borgarfirði og í Kjarnaskógi við Akureyri. Sérfræðingar Skógræktarinnar á Mógilsá munu fylgjast vel með framvindunni og lirfurnar og lífferlar þeirra eru til rannsóknar.“

Greinin í MorgunblaðinuAfurðir og tekjur aukast

Líðandi sumar hefur verið hlýtt og gróskumikið. Á Suðurlandi, þar sem Hreinn hefur aðsetur, eru á annað hundrað bændur að taka þátt í bændaskógrækt sem í nokkrum mæli er nú farin að skila afurðum og þar með tekjum. Þær munu aukast á komandi árum og þar með verður skógrækt orðin gildur þáttur í landbúnaði og þá er allt landið undir. Sömuleiðis eru talsverðar nytjar í þjóðskógunum, svo sem í Haukadal í Biskupstungum. Grisjunarviður þaðan er eftirsóttur, bæði sem kurl í brennsluofn astóriðjunnar sem og til sögunar í timburvinnslu. Ónefnt er þá gildi skógræktar við kolefnisbindingu sem er mótleikur við hlýnun andrúmsloftsins.

„Verkefnin á sviði skógræktar og landgræðslu sem nú eru unnin hér á landi eru spennandi og skipta framtíðina miklu,“ segir Hreinn. Í því samhengi tiltekur hann Hekluskóga, en þeir munu spanna um 1% af flatarmáli landsins eða 100 þúsund hektara. Undir eru svæði frá Hellu á Rangárvöllum, Landsveit, í Þjórsárdal og allt inn fyrir Sigöldu. Í sumar hefur mikið verið unnið á Árskógasvæði austan Sultartangavirkjunar. Stefnt er að því að í framtíðinni nái birkiskógar inn fyrir Sigöldu, svæði sem í dag eru auðnin ein enda á áhrifasvæði Heklu, hins máttuga eldfjalls á Suðurlandi.

Galdur í lundum

„Galdurinn við Hekluskóga er að gróðursetja birki í lundi. Birkið byrjar að mynda frærekla eftir 5-10 ár og sáir sér síðan um nærliggjandi svæði. Núna er trjágróður í sumum lundum kominn vel á legg og þar sjáum við aðferðafræðina virka,“ segir Hreinn. „Svo gróðursetjum við líka eins og enginn sé morgundagurinn, í ár um 600 þúsund plöntur og verðum að langt fram á haust. Þarna vinnur líka vel með okkur að uppgræðsla með áburði eða lúpínu hefur víða stöðvað sand- og vikurfok og bundið og byggt upp jarðveg svo annar gróður nær þar að skjóta rótum. Þetta er mikilvæg reynsla sem nýtist í sambærilegum skógræktarverkefnum sem eru fram undan, svo sem við Þorlákshöfn og á Hólasandi norður í Þingeyjarsýslum.“

Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson