Sérfræðingur á Mógilsá mælir þó ekki með eitrun

Brynja Hrafnkelsdóttir, sérfræðingur á Rannsóknastöð Skógræktarinnar á Mógilsá, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að skaðvaldar í skógum og görðum nái sér vel á strik í hlýindum eins og verið hafa í vor og sumar. Hún mælir ekki með eitrun enda sé ekki alltaf gott að vita hver áhrifin verða. Skordýr gangi sjaldnast af trjám og runnum dauðum.

Skógræktin biður fólk að láta vita um skaðvalda, sérstaklega ný skordýr og þegar þeirra verður vart á nýjum stöðum.

Viðtalið við Brynju í Morgunblaðinu er á þessa leið:

Sumarið hefur verið gott fyrir skordýrin eins og aðrar lífverur í landinu. Brynja Hrafnkelsdóttir, sérfræðingur á rannsóknarstöð Skógræktarinnar, segir að skaðvaldar í skógum og görðum nái sér vel á strik í hlýindum eins og verið hafa í vor og sumar. Veðráttan á vorin hafi mikil áhrif.

Ræktunarfólk hefur aðallega orðið vart við sömu skaðvalda og undanfarin ár. Brynja segir að vorið hafi byrjað með miklum fiðrildalirfufaröldrum. Haustfeti og víðifeti hafi verið mest áberandi. Lirfurnar hafi verið skæðar í runnum í vor. Víðirunnar líti einna verst út og þeir séu enn ekki búnir að jafna sig þótt lirfan sé horfin.

Birkikemba breiðir úr sér

Birkikemba hefur herjað á birkitré, eins og undanfarin ár en hennar varð fyrst vart fyrir rúmum tíu árum. Brúni liturinn á laufblöðunum kemur upp um birkikembuna því lirfan étur innan úr blöðunum. Birkikemba sást fyrst í Hveragerði og hún hefur verið að dreifa sér um Suðurland og Vesturland og hefur nú fundist á Akureyri. „Hún fer snemma, sem betur fer, og trén ná að jafna sig og verða græn aftur,“ segir Brynja.

Ekki liggur enn fyrir hvort birkið myndar mótstöðu gegn birkikembunni en skógræktarfólk fylgist með því af athygli. Skógræktin biður fólk að láta vita um skaðvalda, sérstaklega ný skordýr og þegar þeirra verður vart á nýjum stöðum.

Asparglytta er bjalla sem herjar á aspir og víðitegundir og er jafngömul birkikembunni hér á landi. Bæði bjallan og lirfa hennar valda skaða. Svo virðist sem asparglyttan hafi valdið mestu tjóni á viðju og víði.

Rifsþéla er vesputegund sem fer illa með rifsberjarunna og stikkilsberjarunna. Brynja segir að svolítið hafi sést til hennar í sumar. Öll lauf runnans hverfa á nokkrum dögum.

„Þetta er það sem hefur verið mest áberandi í sumar. Ég veit svo ekki hvað kemur með haustinu,“ segir Brynja.

Faraldrar rísa og hníga

Spurð um hugsanlegar aðgerðir gegn skaðvöldum í skógum og görðum tekur Brynja Hrafnkelsdóttir fram að slíkir skordýrafaraldrar komi í hrinum sem dvíni en gjósi svo gjarnan upp síðar. Það sé misjafnt hvað fólk geti hugsað sér að lifa við. Yfirleitt snýst málið fyrst og fremst um útlit trjáa og runna sem eru ljótir á meðan faraldurinn gengur yfir. Brynja segist ekki mæla með eitrun, ekki sé alltaf gott að vita hvaða áhrif það hafi. Þá gangi þessi skordýr sjaldnast af runnum og trjám dauðum, þótt gróðurinn sé ljótur á meðan á faraldrinum standi, og því ekki þörf á að höggva trén.