Fótboltastrákar frá Selfossi sem gróðursettu sunnan við Sultartangalón um helgina. Mynd af vef Heklu…
Fótboltastrákar frá Selfossi sem gróðursettu sunnan við Sultartangalón um helgina. Mynd af vef Hekluskóga.

Útlit fyrir mikið birkifræ í haust ef fram fer sem horfir

Birki blómgast sem aldrei fyrr í Heklu­skóg­um og má búast við miklu fræi í haust ef það nær að þroskast. Frá þessu segir í nýrri frétt á vef Hekluskóga. Vel hafi gengið að gróðursetja og landeigendur og verk­takar unnið hörðum höndum að gróður­setningu víða um svæðið enda skilyrði til gróðursetningar með besta móti og jörð frostlaus langt inn til fjalla.

Margir hópar komu að gróðursetja á Heklu­skógasvæðinu í yndislegu veðri helgina 20.-21. maí. Laugardaginn komu fótbolta­strákar frá Selfossi ásamt foreldrum og sömuleiðis hópar til uppgræðslu og gróður­setningar í svokallaða Mótorhjólaskóga. Hóparnir sem komið hafa að verkefninu Mótorhjólaskógar eru BMW Ísland, Skutlur, Gaflarar, H.O.G. Chapter Iceland (Harley Davidson) sem hafa unnið á svæðinu einn dag á ári frá árinu 2012 og Slóðavinir frá árinu 2009.  Skutlurnar sýndu góða takta í gróðursetningu að því er segir í frétt Hekluskóga og svo fór að engar plöntur voru eftir fyrir Slóðavini sem unnið hafa að uppgræðslu og birkirækt í Vaðöldu, norðan við svæði Mótorhjóla­skóganna. Með fréttinni fylgir myndband sem Kristján Gíslason gerði af gróðursetningu BMW-liðsins.

2017.05.20 Planting for Future

Sunnudaginn 21. maí kom svo annar stór hópur fótboltadrengja frá Selfossi ásamt foreldrum, auk hóps fimleika­stúlkna og foreldra frá Hveragerði. Alls gróðursettu þessir hópar um 35 þúsund plöntur og báru á.

Á vef sínum þakka Hekluskógar þessu öfluga fólki fyrir frábæra helgi með hvatningarorðunum: „Græðum Ísland með góðu fólki!“