Skógfræðinemar ásamt Bjarna Diðriki Sigurðssyni prófessor í vettvangsferð. Ljósmynd af skogur.is.
Skógfræðinemar ásamt Bjarna Diðriki Sigurðssyni prófessor í vettvangsferð. Ljósmynd af skogur.is.

Landbúnaðarháskóli Íslands auglýsir nú styrk sem í boði er í samvinnu við UEF-háskólann í Austur-Finnlandi til meistara- og jafnvel doktorsnáms í skógvistfræði. Rannsökuð verður framleiðni skógar, jarðvegsvistfræði og hringrás gróðurhúsalofttegunda á Suðurlandi.

Frá þessu segir í frétt á vef LbhÍ. Þar segir jafnframt:

Ein af mikilvægustu spurningum samtímans er hvernig við getum brugðist við auknum styrk gróðurhúsalofttegunda (GHG) í andrúmsloftinu og loftslagsbreytingum þeim samfara. Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna (IPCC) hefur nú gefið út að ef markmið Parísarsamkomulagsins eiga að nást, þ.e. að halda hlýnun á heimsvísu innan 2°C, sé ekki nóg að draga úr losun GHG, heldur verði jafnframt að ráðast í mótvægisaðgerðir til að binda það CO2 sem þegar hefur verið losað.

Hérlendis felast slíkar aðgerðir einkum í að auka bindingu kolefnis með breyttri landnýtingu, svo sem skógrækt og landgræðslu, eða draga úr losun frá jarðvegi með endurheimt votlendis. Tilraunaskógurinn í Gunnarsholti var gróðursettur árið 1990 og er mest rannsakaði skógur landsins. Hann var jafnframt fyrsta svæðið á Íslandi og með fyrstu svæðum í Evrópu þar sem kolefnisjöfnuður var mældur með beinum hætti og birtust þær niðurstöður í Nature árið 2000. Binding og losun annarra gróðurhúsalofttegunda (CH4 og N2O) hefur hins vegar aldrei verið mæld í skóginum.

Árið 2004 hófst ný langtímatilraun í Tilraunaskóginum í Gunnarsholti þar sem markmiðið var að meta hversu mikið væri hægt að auka vaxtarhraða og kolefnisbindingu skóga hérlendis með árlegri smáskammtaáburðargjöf. Þetta er gert með svokallaðri kjörblöndu allra stein- og snefilefna sem trén þurfa til vaxtar, aðferð sem Bjarni Diðrik þróaði í doktorsverkefni sínu við SLU í Svíþjóð. Þegar loftslagsáhrif skógræktar eru metin er hins vegar mikilvægt að horfa á heildaráhrif, þ.e. jöfnuð allra þriggja helstu gróðurhúsalofttegundanna, og sérstaklega hvort einhver langtímaáhrif verða á kolefnisforða jarðvegs, sem hérlendis inniheldur gjarnan 3-5 sinnum meira magn kolefnis en það sem bundið er ofanjarðar.

Styrkur til meistara og jafnvel doktorsnáms í skógvistfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands (LBHÍ) í samstarfi við UEF-háskólann í Austur-Finnlandi (University of Eastern Finland) í rannsókn á framleiðni skógar, jarðvegsvistfræði og hringrás gróðurhúsalofttegunda á Suðurlandi

Þetta verkefni bætir við slíkum rannsóknum og mun að auki meta áhrif áburðargjafarinnar á líffræðilegan fjölbreytileika í skóginum og þannig meta hvort smáskammtaáburðargjöf í skógrækt sé umhverfislega sjálfbær.

Verkefnið er styrkt af Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar. Styrkupphæð fyrsta árs er 1,2 milljónir í launa- og ferðastyrk 2020-2021 og um 1,5 milljónir í efniskostnað. Hugsanlega verður möguleiki á að stækka meistaraverkefnið upp í fjögurra ára doktorsnám á öðru ári, en reglur LbhÍ leyfa slíkt. Leiðbeinendur í verkefninu verða Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við LbhÍ og Christina Biasi, prófessor við UEF.

Umsóknir

LbhÍ óskar hér með eftir umsóknum nemenda með háskólapróf í skógfræði eða af öðrum sviðum náttúruvísinda í þetta verkefni. Umsókninni þarf að fylgja ferilskrá og stutt persónuleg greinargerð frá viðkomandi sem lýsir áhugasviði og framtíðaráformum. Umsóknum skal skila á rafrænu formi til Guðmundu Smáradóttur, mannauðs- og gæðastjóra LbhÍ (gudmunda@lbhi.is), fyrir 1 apríl 2020.

LbhÍ áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum ef enginn hæfur umsækjandi sækir um starfið.

Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson