Dráttarvél stendur milli stafla af trjábolum og vöruflutningabíls sem er nær fulllestaður af bolum. …
Dráttarvél stendur milli stafla af trjábolum og vöruflutningabíls sem er nær fulllestaður af bolum. Verið að hífa kippu af bolum yfir á bílinn í björtu vetrarveðri með dálitlum snjó á jörð

Ráðgerðar kísilmálmverksmiðjur á Húsavík og í Helguvík þurfa gríðarmikinn trjávið

Samningur sem Skógrækt ríksins gerði við Elkem á Grundartanga árið 2010 var mikilvæg innspýting í skógræktarstarfið. Elkem kaupir eins og er mestallan grisjunarvið sem fellur til í skógum Skógræktarinnar og býðst einnig til að kaupa grisjunarvið frá öðrum, t.d. skógræktarfélögum og skógarbændum, til að selja áfram til Elkems. Salan á viðnum stendur undir grisjunarkostnaði í skógunum auk flutnings- og kurlunarkostnaðar sé hagkvæmni höfð að leiðarljósi í öllum þáttum. Þess vegna er nú orðið auðveldara fyrir skógareigendur að sinna grisjunarvinnu sem nauðsynleg er til að nytjaskógarnir geti haldið áfram að vaxa og gefið af sér enn verðmætari afurðir eftir fáeina áratugi. En íslensku skógarnir eru ekki stórir og langt frá því að þeir geti annað allri spurn iðnfyrirtækjanna eftir iðnviði. Af öllu trjákurli sem Elkem á Grundartanga notaði á síðasta ári voru einungis að litlum hluta úr íslenskum viði. Annað var flutt inn frá útlöndum eða fengið frá Sorpu. Af þessu sést að nægur markaður er fyrir iðnvið á Íslandi og sá markaður á eftir að stækka mjög með nýju verksmiðjunum tveimur.

Asparskógar á þúsundum hektara
Taka skal fram að ekkert er enn farið að ræða um sölu á trjáviði til þessara nýju verksmiðja. Engar ákvarðanir hafa heldur verið teknar um stóraukna skógrækt til að anna betur spurninni eftir iðnviði en áhugavert er að staldra við þá stöðu sem virðist vera að koma upp og velta henni fyrir sér. Verksmiðja Elkems á Grundartanga miðar við að nota um 30.000 tonn af viðarkurli árlega. Þorbergur Hjalti Jónsson, vistfræðingur og skógarhagfræðingur hjá Rannsóknarstöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá, segir að til að fullnægja núverandi spurn Elkems þyrfti um 7-10 þúsund hektara iðnviðarskóg af alaskaösp. Öspin er sú tegund sem gefur hraðast af sér slíkan við hérlendis. Þessari eftirspurn væri hægt að mæta á 15-20 árum frá því að ræktun hefst.

Til að gefa einhverja hugmynd um stærð má nefna að Vaglaskógur er um 300 hektarar að stærð og náttúrlegi birkiskógurinn á Hallormsstað um 400 hektarar. En við getum líka tekið aðra viðmiðun. Samkvæmt upplýsingum frá Bergsveini Þórssyni, svæðisstjóra Norðurlandsskóga í Skagafirði og Húnavatnssýslum, hafa verið skipulagðir á því svæði um 10.000 hektarar til skógræktar og þegar hefur verið gróðursett í um 5.600 hektara. Viðarmyndun er ekki jafnhröð á öllum skógræktarsvæðum en á þessu sést samt sem áður að ræktun iðnviðar á 7-10 þúsund hekturum er alls ekki óhugsandi.

Viðarþörfin á Húsavík enn meiri
Á Húsavík hyggst þýska fyrirtækið PCC  reisa kísilmálmverksmiðju og áætlar að nota talsvert meira viðarkurl en Elkem á Grundartanga eða um 45-90 þúsund tonn. Þetta kurl þarf að vera úr trjábolum án barkar að sögn Þorbergs Hjalta. Dýrt er að flytja viðinn úr skógunum langan veg milli landshluta þannig að best væri að fá hann úr nálægum skógum. Fyrir Húsavíkurverksmiðjuna væri þá hagkvæmast að viðurinn kæmi úr skógum í Þingeyjarsýslum og Eyjafirði.

En hversu mikið land þyrfti þá til að framleiða iðnvið fyrir verksmiðju PCC á Húsavík? Það fer eftir því hvaða forsendur eru gefnar en þörfin gæti verið 15-50 þúsund hektarar. Þarna gæti verið tækifæri fyrir bændur og aðra landeigendur. Skógræktin gæti verið aukabúgrein með hefðbundnum landbúnaði eða hreinlega komið í staðinn. Ef til vill er ekki raunhæft að ætla að íslenskir skógar anni eftirspurn verksmiðjanna þriggja í nálægri framtíð og líklegra að markið yrði sett á tiltekið hlutfall til að byrja með. Hins vegar sparast þeim mun meiri gjaldeyrir og skapast fleiri störf í landinu eftir því sem hlutfall innlends viðar er hærra.

Svipað magn í Helguvík
Loks skal nefna kísilmálmverksmiðjuna sem íslenska fyrirtækið Torsil ætlar að reisa í Helguvík á Reykjanesi. Torsil hafði áður litið í kringum sig bæði á Húsavík og Þorlákshöfn en Helguvík varð loks fyrir valinu. Samkvæmt tillögum að matsáætlunum sem gerðar voru fyrir ráðgerða verksmiðju PCC í Þorlákshöfn og fréttum af nýja Helguvikurverkefninu má ætla að hráefnisþörf iðjuversins í Helguvík verði áþekk og PCC-verksmiðjunnar á Bakka. Vegna flutningskostnaðar væri að sjálfsögðu hagkvæmast að iðnviður fyrir verksmiðjuna þar væri ræktaður á suðvestanverðu landinu.

Það skal ítrekað að þetta eru aðeins vangaveltur um möguleika og engar viðræður hafa enn farið fram milli Skógræktar ríkisins og fyrirtækjanna sem standa fyrir uppbyggingu verksmiðja á Húsavík og í Helguvík.

Texti og myndir: Pétur Halldórsson