Steingrímur Hermannsson, fyrrverandi forsætisráðherra, á sumarhús og skógi vaxið land á jörðinni Kletti í Borgarfirði. Það var faðir hans, Hermann Jónasson, sem átti jörðina Klett og var upphafsmaður skógræktarinnar þar. Skóginn á landareigninni hefur Steingrímur grisjað, ásamt fjölskyldu sinni, undanfarin ár.

Þar nýtur hann liðsinnis Skógræktar ríkisins, en í samtali við Bændablaðið segist hann tvisvar hafa fengið sér til aðstoðar menn úr skógræktinni í Skorradal við grisjunina. Stærstu trén lætur Steingrímur síðan fletta niður í borð að Mógilsá og notar þau til smíða. Eftir flettinguna þurrkar hann borðin og þykktarheflar og pússar þau að lokum. Þennan við notar Steingrímur til að þilja að innan bjálkakofa sem hann hefur reist á Kletti.

Á myndinni er Steingrímur í Viðarmiðluninni á Mógilsá ásamt Ólafi Sæmundssyni, deildarstjóra.