Þessi sproti á ilmreynitré við Spítalaveg á Akureyri ætlar að verða að blómi og brosti móti sólu mið…
Þessi sproti á ilmreynitré við Spítalaveg á Akureyri ætlar að verða að blómi og brosti móti sólu miðvikudaginn 13. apríl 2016. Upp úr standa leifarnar af berjaklasa frá liðnu hausti.

Ráðherra setur málið í forgang

Vinna við stefnumótun nýrrar sameinaðrar skógræktarstofnunar er komin vel á veg. Stýrihópur um sameininguna hittist á fundi í gær og þar var haldið áfram að vinna að stefnumótunarskjali sem ætti að liggja fyrir kringum næstu mánaðamót. Vonir eru bundnar við að þær lagabreytingar sem gera þarf til að sameiningin geti orðið 1. júlí nái fram að ganga á Alþingi í vor en það er meðal forgangsmála af hálfu umhverfis- og auðlindaráðherra.

Stefnumótunin er unnin upp úr þeim tillögum og hugmyndum sem fram hafa komið í ítarlegri greiningarvinnu starfsmanna undanfarna mánuði, viðtölum sem ráðgjafar Capacent hafa tekið við hvern og einn starfsmann og svokölluðum „þjóðfundi“ þar sem nær allir starfsmenn Landshlutaverkefna í skógrækt og Skógræktar ríkisins unnu saman heilan dag að stefnumótun.

Starfsfólkið ætti því að kannast við efnisatriðin sem verða í hinu endanlega plaggi. Í beinu framhaldi af stefnumótuninni verður farið í að draga upp núverandi verkþætti og leggja drög að skipuriti nýrrar stofnunar. Samhliða er unnið í kostnaðaráætlunum, annars vegar um hvað sameiningin sjálf muni kosta og hins vegar um hvað muni kosta að reka nýja stofnun.

Næsti fundur stýrihópsins verður haldinn 27. apríl en þangað til vinna fulltrúar í hópnum áfram að mótun stefnumótunarskjalsins og þeim hugmyndum sem þeir vilja leggja fram að skipulagi nýrrar stofnunar.

Texti og mynd: Pétur Halldórsson