Að undanförnu hafa verið unnir girðingarstaurar úr grisjunarvið í Víðivallaskógi.  Þessir staurar eru notaðir í nýgirðingar og til viðhalds eldri girðingum á vegum Héraðsskógaverkefnisins.

Það er Jón Þór Þorvarðarson skógarbóndi á Glúmsstöðum sem sér um þessa vinnslu en hann á birkingarvél sem notuð er við að hreinsa börkinn af stofnunum og Skógræktin á Hallormsstað á yddara sem yddar odd á staurana.

Staurar er ein fyrsta afurðin sem kemur úr skógunum. Efni sem kemur úr fyrstu grisjun og er of grannt til að fletta í borð hentar ágætlega til stauravinnslu.

Lerki er tvímælalaust einhver besti viður sem völ er á í girðingarstaura, lerkið er mun harðara efni en greni sem er í innfluttum staurum og kjarninn í lerki inniheldur efni sem vinnur gegn fúasveppum.  Staurana  þarf því ekki að fúaverja og þeir endast von úr viti.