Fulltrúi Umhverfisstofnunar og skógræktarstjóri ásamt starfsfólki Akureyrarskrifstofu Skógræktarinna…
Fulltrúi Umhverfisstofnunar og skógræktarstjóri ásamt starfsfólki Akureyrarskrifstofu Skógræktarinnar. Frá vinstri: Rakel Jónsdóttir, Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri, Brynjar Skúlason, Valgerður Jónsdóttir, Hallgrímur Indriðason, Pétur Halldórsson og Hólmfríður Þorsteinsdóttir, sérfræðingur á sjálfbærnisviði Umhverfisstofnunar. Á myndina vantar einn úr starfsliði starfstöðvarinnar, Bergsvein Þórsson.

Markmiðið að allar starfstöðvar taki skrefin

Starfsfólk Akureyrarskrifstofu Skógræktar­innar í Gömlu-Gróðrarstöðinni tók á mánu­daginn var við viðurkenningu frá Umhverfis­stofnun fyrir að hafa náð fyrsta „Græna skrefinu“ í ríkisrekstri. Markmiðið er að allar starfstöðvar Skógræktarinnar taki þessi skref.

Metnaðarfullar og framsýnar stofnanir geta nú nýtt sér hvatakerfið Græn skref í ríkis­rekstri til að stuðla að aukinni sjálfbærni í rekstri og bættri umhverfisvitund meðal starfsmanna. Skógræktin hefur undanfarin misseri unnið að því að innleiða þetta kerfi í rekstri sínum og nú fyrr í vikunni fékk fyrsta starfstöðin, Akureyrarskrifstofan í Gömlu-Gróðrarstöðinni, viðurkenningu fyrir að hafa náð fyrsta skrefinu af fimm. Hólmfríður Þorsteinsdóttir, sérfræðingur á sjálfbærni­sviði Umhverfisstofnunar, afhenti starfsfólkinu á Akureyri viður­kenninguna að viðstöddum Þresti Eysteinssyni skógræktarstjóra.

Grænu skrefin eru einföld og aðgengileg leið fyrir opinbera aðila að vinna markvisst að umhverfismálum. Við innleið­ingu þeirra er einföldum gátlistum fylgt og eru veittar viðurkenningar fyrir hvert Grænt skref sem tekið er. Markmiðið er að efla vistvænan rekstur ríkisins með kerfisbundnum hætti en góðum árangri í umhverfismálum getur auk þess fylgt hagræðing í rekstri og bætt yfirsýn yfir ferla. Með því að stíga skrefin eru stofnanir að innleiða hluta af stefnu ríkisins um vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur sem segir að minnka skuli umhverfisáhrif opinberra innkaupa og gera rekstur ríkisstofnana umhverfisvænni.


Í Gömlu-Gróðrarstöðinni hefur verið komið upp söfnunarílátum fyrir alla flokka sorps og lífrænn úrgangur er jarðgerður í moltu­tunnu að húsabaki, þrír starfsmenn í húsinu hafa gert samgöngusamning við Skógrækt­ina og koma gangandi eða hjólandi til vinnu flesta daga hugað er að umhverfis­merking­um hreinsivara og pappírs og sett upp innstunga fyrir rafbíla, svo eitthvað sé nefnt.

Verkefnið er byggt á vel heppnuðum Grænum skrefum Reykjavíkurborgar, sem góðfús­lega gaf leyfi fyrir því að kerfið yrði aðlagað og notað með þessum hætti. Stýrihópur um vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur er í forsvari fyrir Grænu skrefin í ríkisrekstri en Umhverfisstofnun fer með rekstur verkefnisins. Verkefnið hófst í nóvember 2014 og eru nú yfir 100 starfstöðvar í verkefninu. Rannsakaður hefur verið ávinningur af verkefninu sem felst í aukinni starfsánægju, meiri umhverfisvitund, fjárhagslegum sparnaði og í ljós kemur að starfsmenn breiða út boðskapinn til fjölskyldu, vina og jafnvel lengra.

Texti og myndir: Pétur Halldórsson