Hægt að nýta viðinn að töluverðu leyti segir skógarvörður

Skógarvörðurinn á Vöglum í Fnjóskadal gerir ráð fyrir því að hægt verði að nýta viðinn af stórum hluta þeirra furutrjáa sem brotnuðu í snjóflóði í Þórðarstaðaskógi í vetur. Þarna séu um 150-200 rúmmetrar af viði. Mest skemmdist af stafafuru en einnig nokkuð af rauðgreni, blágreni og birki.

Snjóflóðið féll í kjölfar stórhríðar sem gekk yfir dagana 21. og 22. mars í vetur. Svæðið sem skemmdist er um 1 hektari að stærð. Þarna voru um miðjan sjöunda áratuginn sett út fjögur kvæmi af stafafuru og a.m.k. tvö þeirra voru suðlæg kvæmi hátt ofan úr fjöllum inn til landsins á útbreiðslusvæði stafafuru í Norður-Ameríku. Rúnar Ísleifsson, skógarvörður á Vöglum, segir að öll tré úr tveimur kvæmanna hafi eyðilagst.

Auk furunnar fór eitthvað af birkinu sem vex m.a. ofan við furureitinn en þó virðist birkið hafa sloppið merkilega vel. Velta menn fyrir sér að snjóflóðið hafi fleytt kerlingar niður hlíðina og hoppað yfir birkið að einhverju leyti ef svo má að orði komast. Rúnar segir reyndar að eftir sé að skoða betur skemmdirnar á birkinu. Þá eyðilagðist líka nokkuð af rauðgreni og blágreni sem óx norðan furureitsins.

Rúnar gerir ráð fyrir að hægt verði að nýta töluverðan hluta þess trjáviðar sem þarna liggur eftir snjóflóðið og selja það til kurlunar till Elkem. Til mikils er að vinna því þetta voru stór og myndarleg tré sem mikil verðmæti séu í. Rúnar vonast til að skógarhöggsvél Kristjáns Más Magnússonar geti tekið þetta að talsverðu leyti en eitthvað þurfi líka að saga með mótorsög. Fyrst þarf þó að opna veginn í skóginum og Rúnar telur að það taki tvo menn heilan dag að saga trén sem liggja yfir veginn. Hann áætlar að á svæðinu hafi verið um 150 til 200 rúmmetrar af viði en svæðið var grisjað fyrir fjórum árum.

Aðspurður um hvort gróðursett verði aftur í svæðið þar sem snjóflóðið braut skóginn segir Rúnar það líklegt. Hugsanlega verði þar ræktað blágreni eða rauðgreni til að selja sem jólatré. Reyndar sé ekki víst að gera þurfi eitt né neitt á þessu svæði því líklega sé þar nægur fræforði í jörð og sjáfsáin stafafura komi upp af sjálfu sér.


Texti: Pétur Halldórsson
Myndir og myndband: Rúnar Ísleifsson

  

  

 
Myndir af snjóflóðasvæðinu teknar 13. júní. Á nokkrum myndanna stendur 
Valgeir Davíðsson, starfsmaður Skógræktarinnar á Vöglum og sýnir okkur
hversu myndarlegur skógurinn var sem féll í flóðinu.


Hér má sjá stutt myndskeið sem tekið var á svæðinu 13. júní 2014.