Timburstæða á kafi í snjó á Vöglum. Ljósmynd: Valgerður Jónsdóttir
Timburstæða á kafi í snjó á Vöglum. Ljósmynd: Valgerður Jónsdóttir

Grein eftir Valgerði Jónsdóttur

Birtist í: Ársriti Skógræktarinnar 2020

Vaglaskógur er þekkt snjóakista enda stendur starfstöð Skógræktarinnar þar í nær 150 metra hæð yfir sjávarmáli. Skógurinn veitir skjól en safnar jafnframt í sig snjó á vetrum. Fyrir kemur að jörð sé snævi þakin í sjö mánuði í Vaglaskógi.

Snjódýptarmælingar hafa verið framkvæmdar af starfsmönnum Skógræktarinnar allt frá árinu 1960. Sú samantekt sem hér birtist er ekki hávísindaleg, enda tekin saman meira til gamans. Snjómælingar hafa farið fram á þremur mismunandi stöðum á tímabilinu. Fyrst var mælirinn staðsettur við hús skógarvarðar á Vöglum 2, síðan um árabil við Lerkihlíð en undanfarin ár hafa mælingar farið fram á flötinni sunnan starfstöðvarinnar.

Skógarvörðurinn mokar upp heimilisbílinn í febrúar 2018. Ljósmynd: Valgerður JónsdóttirÍ skýrslum skógarvarða hefur í gegnum tíðina oft verið fjallað um snjóþyngsl og erfiðleika sem af þeim hafa skapast. Snjóalög hafa þó greinilega verið afar mismunandi eftir árum, allt frá því að vera nánast snjólaust upp í að allt sé á bólakafi mánuðum saman.

Skógarvörður skrifar eftirfarandi í ársskýrslu 1915:

Þetta árið hefir vöxturinn í skóginum og græðireitnum verið með lang rýrasta móti, fjölda margir ársprotar eru ekki lengri en 5-8 cm. eftir sumarið og sumir hafa ekki einu sinni náð þeim vexti. Einkum var það hart næturfrost fyrst í júlímánuði, sem kippti úr vextinum, eða stöðvaði vöxtinn algerlega um tíma.

Það hefur sem betur fer ekki gert þvílíkt frost í byrjun júlí nýlega, en þetta lýsir vel þeim aðstæðum sem búið var við.

Árið 1949 skrifar skógarvörður í ársskýrslu:

Tíðarfar var mjög erfitt framan af sumri allt fram í miðjan júní … t.d. varð að fá snjóýtu til að ryðja veginn, svo hægt væri 5. júní að komast á bifreið í græðireitinn.

Norskir skógræktarmenn komu gjarnan til Íslands til að gróðursetja um og upp úr miðri síðustu öld og íslenskir skógræktarmenn fóru til Noregs í sömu erindagjörðum í staðinn. Ætla má að veðráttan hafi verið mildari löndum okkar í Noregsferðunum en norskum skógræktarmönnum sem komu að Vöglum í byrjun júní 1952. Skógarvörður lýsir heimsókninni í ársskýrslu:

Hafði allan þennan tíma verið mjög kalt í veðri, oftast frost um nætur. Unnið var þó að gróðursetningu mest allan tímann sem Norðmennirnir voru í Vaglaskógi, var það kuldaverk að vinna að gróðursetningu oft í slydduéljum. Þurfti víða að ryðja snjó frá til að koma plöntunum niður.

Miklum snjó kyngdi niður á Norðurlandi um miðjan janúar 2020. Huldar Trausti Valgeirsson, starfsmaður Skógræktarinnar, við snjóhreinsun. Ljósmynd: Valgerður JónsdóttirVeturinn 1994-1995 var afar snjóþungur. 24. júní sagði skógarvörður frá því í blaðaviðtali að til stæði að opna skóginn þá um helgina, þrátt fyrir að enn væri ekki hægt að opna öll tjaldsvæði vegna bleytu og gat hann þess að mikill snjór væri enn þá í Þórðarstaðarskógi.

Hin síðari ár hefur veðráttan verið mildari. Þó má yfirleitt reikna með að það vori u.þ.b. tíu dögum seinna á Vöglum en vestan megin við Vaðlaheiðina, í Eyjafirði. Síðan mælingar hófust hefur snjódýptarmæling einu sinni náð tveimur metrum. Það var 27. febrúar 1990, þegar snjódýpt mældist sléttir 2 metrar.

Það segir þó kannski meiri sögu um snjóalög hversu lengi snjórinn staldrar við. Oft snjóar mikið en tekur svo upp aftur. Meðfylgjandi graf sýnir fjölda daga þar sem snjóþekja er 70 cm. eða meiri.

Dagar með snjódýpt yfir 70 cm

Eins og sjá má er árið 2012 sigurvergarinn í þeirri keppni áranna, en þá var snjódýpt meiri en 70 cm. í um 5 mánuði.

Ef við skoðum sömu tölfræði, en miðum við 20 cm snjólag, sést að árið 2012 hefur verið snævi þakin jörð í Vaglaskógi í a.m.k. sjö mánuði! Það ár er snjódýpt skráð síðast 4. júní að vori og í fyrsta sinn að hausti 9. september.

Dagar með snjódýpt yfir 20 cm

 Ársrit Skógræktarinnar 2020