Hús úr trjáviði eru langtímageymsla fyrir kolefni

Norski skógargeirinn gaf í fyrravor út bækling þar sem tíunduð eru þau fjölmörgu jákvæðu áhrif sem notkun timburs hefur á loftslag, umhverfi og samfélag. Norðmenn eiga mikinn skóg og nú binst tvöfalt meira viðarmagn í norskum skógum árlega en það sem tekið er út úr skógunum. Viður sem nýttur er til smíða geymir kolefnið í sér á meðan hús eða smíðisgripur endist en nýtist síðan sem endurnýjanlegt eldsneyti.

Í þessum efnum rekur menn ekki síst áfram sú stefna norskra stjórnvalda að Noregur verði kolefnishlutlaust land árið 2030. Í þessu felast mikil tækifæri fyrir norska skógrækt og skógiðnað því meiri trjárækt og meiri notkun viðar stuðlar að minni útblæstri koltvísýrings á margvíslegan hátt. Trjáviður úr endurnýjuðum skógi er sjálfbær auðlind og Norðmenn segja að hann sé visthæfasta byggingarefnið sem þar sé fáanlegt. Bæklingurinn sem norski skógargeirinn gaf út í fyrravor út heitir „Lille grønne“. Þar er tíundað hvers vegna sé gott að nota timbur í byggingariðnaði og hvernig timburnotkun hefur áhrif í samhengi við loftslagsbreytingar. Fern samtök standa að bæklingnum, norsku skógiðnaðarsamtökin Treindustrien, rannsóknarstofnun norska trjáiðnaðarins, Treteknisk, samtök skógareigenda, Skogeierforbundet og TreFokus sem er fræðslumiðstöð skógræktar og skógiðnaðar í Noregi.

Meðal þess sem fjallað er um í bæklingnum er hvernig náttúran bindur kolefni úr andrúmslofti til geymslu í viði. Úti í náttúrunni verður til hringrás kolefnis þar sem kolefnið binst fyrst í trjáviðnum en losnar aftur í fyllingu tímans þegar tréð drepst og rotnar. Ef tréð er hins vegar tekið og úr því reist húsbygging sem stendur í áratugi eða jafnvel aldir geymist kolefnið miklu lengur í trjáviðnum. Losun kolefnisins úr hringrásinni er þannig seinkað. Í skóginum vaxa á meðan upp ný tré. Þess vegna binst meira af kolefni en það sem losnar. Þegar húsin eru rifin má svo nota viðinn sem eldsneyti sem enn telst þá endurnýjanlegt þótt viðurinn hafi geymst lengi sem húsaviður.

Þá kemur líka fram í bæklingnum að í Noregi hafi síðustu öldina vaxið meiri skógur í Noregi en sem nemur þeim viði sem tekinn hefur verið út úr skógunum. Vöxturinn nú er meira en tvöfalt meiri en það sem höggvið er til nytja. Norskir skógar eru með öðrum orðum sjálfbær auðlind en auk þess sé trjáviður mjög endingargott byggingarefni. Elstu timburhús í Noregi eru um 1.000 ára gömul. Þau voru reist af útsjónarsemi og meðal annars notaðar aðferðir sem dugðu til að auka endingu viðarins. Þetta er hægt að gera enn í dag og ný tækni býður upp á mikla möguleika.

Afurðir skógarins eru nýttar til hins ýtrasta og í raun fer ekket af trjánum til spillis. Trjávið er líka hægt að endurvinna og endurnýta. Vinnsla trjáviðar í byggingarefni hefur litil umhverfisáhrif miðað við önnur byggingarefni og trjáviður hefur góð áhrif á fólkið sem býr í húsunum, dregur úr hita- og rakasveiflum, bætir loftið, dregur úr hávaða og fleira.

Skemmtilegar tölur eru nefndar í bæklingnum um bindingu kolefnis í timbri. Ef við notum einn rúmmetra af smíðaviði getum við hugsað til þess hversu mikið sé geymt af koltvísýringi í viðnum:

  • Birki       920 kíló
  • Fura       810 kíló
  • Greni     700 kíló

Í 100 fermetra einbýlishúsi úr timbri má búast við að notaðir hafi verið 22 rúmmetrar af timbri. Það þýðir að í húsinu eru geymd 16 tonn af kolefni svo lengi sem húsið stendur. Ef við tryggjum að allt það timbur sem við notum til smíða sé úr endurnýjuðum skógi, þar sem ný tré eru gróðursett í stað þeirra sem felld eru, getum við státað af því að timbrið geymi í sér kolefnið á meðan það sem smíðað er forgengur ekki. 

Fyrir áhugasama má benda hér á nokkra hlekki og neðst er hlekkur á sjálfan bæklinginn.