Fenjaskógur í Brúnei á Borneó. Mynd: Ruanda Agung Sugardiman/AusAID - Wikimedia Commons
Fenjaskógur í Brúnei á Borneó. Mynd: Ruanda Agung Sugardiman/AusAID - Wikimedia Commons

Markmið um sjálfbæra þróun og sterkari samvinnu rædd á ráðstefnu CIFOR í Brúnei

Smáþjóðir um allan heim finna nú vel fyrir áhrifum þeirra loftslagsbreytinga sem eru í gangi á jörðinni. Þar er nú unnið að því að laga stefnumál og þróun að hugmyndunum um sjálfbæra þróun. Hvatt er til nánara samstarfs hins opinbera við atvinnulífið, félagasamtök og samstarfsaðila í þróunar­mál­um.

Þetta kom fram hjá leiðtogum eyja á Kyrrahafi á regnskógaráðstefnu Asíu- og Kyrrahafsríkja sem haldinn var í byrjun mánaðarins í Bandar Seri Begawan, höfuðborg soldánsdæmisins Brúnei á eyjunni Borneó í Suðaustur-Asíu.

Osea Naiqamu, ráðherra sjávarútvegs- og skógarmála á Fiji-eyjum talaði fyrir því að þjóðirnar sameinuðust um skýrari stefnu um sjálfbærar skógarnytjar og aðra landnýtingu. Sá tími væri liðinn að skógrækt yrði aðskilin frá landbúnaði og sjávarútvegi. Fiji-eyjar eru meðal margra smáríkja sem ógnir steðja að vegna loftslagsbreytinga. Versti fellibylur sem sögur fara af á eyjunum gekk þar yfir í mars síðastliðnum með mikilli eyðileggingu. Í óveðrinu fórust 44.

Á svipuðum nótum talaði ráðherra landbúnaðar, skógræktar, fiskveiða og varnar gegn smiti og efnamengun í lífríki Vanatu. Sá heitir Matai Seremaiah og greindi frá þeirri stefnu sem land hans hefði markað sér í kjölfar loftslags­breyt­inga. Þar hafa 20 þúsund hektarar frumskógar verið verndaðir í því skyni að efla skóglendi landsins.

Fulltrúar atvinnulífsins láta í ljósi að þeir vilji einnig gjarnan fjárfesta og vinna með stjórnvöldum, sveitarfélögum og skógfræðingum að þróun og framkvæmd verkefna sem stuðla að verndun skóga. Dharsono Hartono yfirmaður indónesíska fyrirtækisins Rimba Makmur Utama hefur trú á því að aukin þátttaka atvinnulífsins í verkefnum á viðkvæmum svæðum geti komið samfélögum fólks þar til góða.


„Við verðum að sýna fram á að við getum látið ýmis verkefni bera sig með því að skapa tekjur af viðskiptum með kolefnis­kvóta,“ segir Makmur. Þar með verði auðveldara að laða aðra fjárfesta úr atvinnulífinu að verkefnum og styrkja lifibrauð smábændanna.

Í opnunarræðu ráðstefnunnar talaði dr Peter Holmgren, forstjóri CIFOR,  alþjóða­sam­taka rannsóknarstofnana í skóg­vís­ind­um, fyrir því að samtaka­mátt­ur ­yrði virkj­að­ur til að ná mætti markmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og standa við þau fyrirheit sem sett voru á Parísar­fund­in­um Í desember 2015. Hann taldi nauðsynlegt að skilgreina skógrækt og skógarnytjar upp á nýtt í því augnamiði að lyfta mætti fólki upp úr fátækt, bæta heilbrigði og efnahag.

„Við getum ekki nýtt til fulls það sem skógar og skógarnytjar hafa fram að færa til sjálfbærni nema við hugsum og störfum þvert á hefðbundin mörk stofnana,“ segir Holmgren. Það sem við eigum helst sameiginlegt og tengir okkur saman er land og landslag. Ástand lands í allri sinni fjölbreytilegu lögun og stærð skipti sköpum um að við getum skapað okkur þá framtíð sem við óskum.

Regnskógaráðstefna Asíu- og Kyrrahafsríkja var að þessu sinni haldin í boði stjórnvalda í Brúnei með stuðningi ríkisstjórnar Ástralíu. CIFOR sá um vísindalega ráðgjöf og framkvæmd.

Íslenskur texti: Pétur Halldórsson