Í haust átti sér stað þó nokkur umræða um smádýr sem berast inn til landsins með innfluttum plöntum, mold og ýmsum varningi. Fyrir hver jól kaupa landsmenn um 30-40 þúsund jólatré en megnið af þessum trjám er innflutt. Á hverju ári hefur það hvarflað að undirruðum að kanna hvaða lifandi smádýr finnast í jólatrjám og berast með þeim inní stofu til okkar. Einkum langaði okkur að bera saman smádýralífið í innfluttum og innlendum trjám. En við höfum ætíð orðið of sein að hefja slíka athugun og hún hefur því farist fyrir. Svona rannsókn þarf að hefja nokkru fyrir jól, því flæming tekur nokkuð langan tíma þar sem að dýrin þarf að vekja úr vetrardvala. En í ár gerðum við litla athugun sem hér verður greint frá.

Líkt og fyrr greinir var hugmyndin sú að bera saman innflutt og íslenskt tré af sömu tegund. Þann 16. desember var því farið til söluaðila jólatrjáa á Akureyri og spurt eftir slíkum trjám. Kom þá í ljós að þær tegundir íslenskra jólatrjáa sem eru til sölu eru ekki fluttar inn til landsins og inn eru fluttar nær eingöngu tegundir sem ekki eru framleiddar hérlendis. Okkur tókst því ekki að útvega samanburðarhæf tré af einni tegund sem bæði er innflutt og af íslenskum uppruna. Þetta hefði eflaust verið hægt með betri undirbúningi. Það varð því úr að við bárum saman íslenskan fjallaþin og innfluttan danskan norðmannsþin.

Athugunin var einföld. Við beittum sömu aðferð og notuð er til að flæma smádýr úr moldarsýnum. Greinar voru klipptar niður í stutta búta sem settir voru í stóra trekt. Undir trektinni voru bikarar með 70% ísóprópanólvökva umvafðir svörtu plasti. Yfir bikurunum voru ljósaperur sem loguðu allan sólarhringinn en bikararnir stóðu í kæliborði (sjá mynd). Það er þrennt sem veldur því að smádýrin skríða niður í bikarana; þau forðast sterkt ljósið, þau forðast hitann ofanfrá og þau forðast greinarnar sem þorna ofanfrá í trektinni. Að viku liðinni voru sýnin í bikurunum skoðuð. Það söfnuðust ekki sérlega mörg dýr, en í ljós kom, svo sem vænta mátti, að tveir dýrahópar voru ríkjandi, mítlar (Acari) og mordýr (Collembola). Þessi litla athugun gefur ekki tilefni til mikilla ályktana, en sé dýrafjöldinn margfaldaður á eitt tveggja metra hátt tré urðu niðurstöður þessar:

  Fjöldi mordýra Fjöldi mítla Smádýr samtals
Fjallaþinur (ísl.) 80 80 160
Norðmannsþinur (erl.) 80 560 640

Má því segja að fjórum sinnum fleiri smádýr hafi fundist í innflutta norðmannsþininum en íslenska fjallaþininum. Mítlarnir eru ríkjandi tegund í innflutta þininum, en svo virtist sem aðallega væri um eina tegund mítla að ræða. Sýni af þeirri tegund voru send til Noregs til greiningar. Nánari tegundagreining á þessum smádýrum er sérfræðivinna og ekki á færi íslenskra fræðimanna.

Það skal að lokum ítrekað að þetta er ekki tilraun, einungis einföld og laklega undirbúin athugun sem gefur vísbendingu. Það er vilji okkar að gera nánari rannsókn á þessu fyrirbæri með betri undirbúningi fyrir næstu jól.

 

Mynd og texti: Brynhildur Bjarnadóttir, Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá og Bjarni E. Guðleifsson, Landbúnaðarháskóla Íslands.