Sumarkvöld í skógi við finnsku vötnin. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Sumarkvöld í skógi við finnsku vötnin. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Yfirlit um erfðavarðveislu skógartrjáa á Norðurlöndunum birtist nýlega í skýrslu skógasviðs norrænu erfðaauðlindastofnunarinnar NordGen. Slík skýrsla hefur ekki komið út áður en henni er ætlað að varpa ljósi á það sem gert er í hverju landi fyrir sig, sýna hvernig megi útfæra áætlanir um erfðaauðlindir skóga og skilgreina möguleika og úrlausnarefni á komandi tíð.

Erfðaauðlindir skóga eru ómetanleg verðmæti á margan hátt. Óhjákvæmilegt er að huga að þessum verðmætum svo tryggja megi sjálfbæra skógrækt til framtíðar á tímum loftslagsbreytinga. Nokkrar leiðir má fara til að tryggja þá erfðafræðilegu fjölbreytni sem nauðsynleg er til að rækta megi hrausta skóga sem staðist geta breytingar og áföll. Hverju landi um sig er ætlað að nýta þær aðferðir sem þróaðar hafa verið vítt og breitt um heiminn, í Evrópulöndunum eða heima fyrir. Dæmi um slíka vinnu er að finna í EUFORGEN, samstarfi Evrópulanda um vernd og nýtingu erfða­auðlinda skóga. Í þeim röðum hafa verið skilgreindar lágmarkskröfur um hvernig erfðafjölbreytni skuli varðveitt í þeim trjám sem þegar vaxa í skógum Norðurlanda (in situ). Þessar kröfur eru einmitt meginumfjöllunarefni áðurnefndrar skýrslu NordGen.

Í tilkynningu frá NordGen er haft eftir Kjersti Bakkebø Fjellstad, forstöðumanni skógasviðs NordGen, að spennandi sé að sjá hvernig norrænu löndin vinna að því að standa við skuldbindingar sínar um varðveislu erfðaauðlinda skóga. „Það er greinilegt að við höfum margt að læra hvert af öðru og mikil tækifæri eru til samlegðar í norræna samstarfinu,“ segir hún.

Komið vel af stað

Skýrslan heitir á ensku Genetic conservation of forest trees in the Nordic countries sem útlagst gæti á íslensku sem „Erfðavarðveisla skógartjáa á Norðurlöndunum“. Vinnuhópur skógasviðs NordGen um erfðaauðlindir skóga tók hana saman undir forystu Mari Mette Tollefsrud sem er formaður hópsins. Mari Mette starfar við skógrannsóknir hjá  NIBIO í Noregi.

„Jafnvel þótt skógrækt fari fram á ólíkum forsendum hjá norrænu þjóðunum sýnir þessi skýrsla að löndin eru, hvert um sig, komin vel á veg við að innleiða bæði evrópsk og alþjóðleg viðmið.  En við sjáum líka að á ákveðnum sviðum er þörf fyrir frekari þróun. Að vega og meta viðteknar aðferðir og festa fingur á gloppur og nauðsynleg næstu skref í erfðavarðveislu skóga er upplagður vettvangur fyrir norræna samvinnu”, segir Mari Mette.

Í skýrslunni er líka beint sjónum að þörfinni á sérstökum verndarsvæðum fyrir viðbótartrjátegundir og svæðum með sérhæfðari loftslagsskilyrði. Þar er einnig rædd sú spurning hvort nægilegt sé að varðveita erfðaauðlindir skóga á hefðbundnum útbreiðslusvæðum tegundanna (in situ) eða hvort þörf sé á varðveislu erfðaefnis með kælingu eða öðrum ytri aðferðum (ex situ).

Íslensk þýðing: Pétur Halldórsson