Mynd úr tilkynningu frá NordGen
Mynd úr tilkynningu frá NordGen

Skógasvið norrænu erfðaauðlindastofnunarinnar NordGen fagnar nú ásamt samstarfsaðilum sínum hálfrar aldar samstarfi norrænnar samvinnu um rannsóknir og þekkingarmiðlun á sviði skóga og skógræktar. Nýverið var ákveðið að stefna fólki saman til afmælisráðstefnu sem haldin verður með hefðbundnum hætti í Elverum í Noregi 22.-23. september í haust.

„Látum söguna spegla framtíðina – 50 ára þekking og miðlun stuðli að sem bestum norrænum skógum í þágu loftslags framtíðarinnar.“ Eitthvað á þá leið gæti íslensk þýðing hljóðað á yfirskrift 50 ára afmælisráðstefnu skógasviðs NordGen. Ráðstefnan fer nú fram í raunheimum í stað þess að vera með rafrænum hætti eins og flestir slíkir viðburðir hafa farið fram síðustu misseri.

Ráðstefnan er opin þátttakendum frá öllum Norðurlöndunum auk Eystrasaltsríkjanna. Fyrirlestrar verða allir haldnir á ensku. Áhugasamir eru hvattir til að skrá sig sem fyrst, í síðasta lagi 15. ágúst 2021. Nánari upplýsingar um ráðstefnuna, dagskrá hennar, gistimöguleika og fleira slíkt er að finna á vef norsku lífvísindastofnunarinnar NIBIO

Auk fyrirlestra og umræðna verður líka sett upp veggspjaldasýning með stuttum kynningum síðdegis 22. september. Frestur til að skrá veggspjöld er til 10. ágúst og nánari upplýsingar um það er einnig að finna á áðurnefndum hlekk. Doktorsnemar og ungt rannsóknarfólk getur sótt um styrki til að standa straum af ferða- og dvalarkostnaði.

Upplýsingar og skráning

Texti: Pétur Halldórsson