Fjöldi trjáa í Skotlandi hefur aukist um 50% á s.l. 20 árum og hlutfall skóglendis hefur ekki verið þar hærra síðan á 14. öld. Barrviðir mynda 2/3 hluta skoskra skóga. Úrvinnsla viðarafurða skapar stöðugt fleiri störf í skosku dreifbýli. Þetta eru helstu niðurstöður úr nýlegri landsúttekt á skógum Skotlands sem unnin var á vegum bresku skógstjórnarinnar (?National Inventory of Woodland and Trees?).

Landsúttekt á skógum Skotlands var síðast gerð árið 1980, en frá þeim tíma hefur flatarmál skosks skóglendis aukist um 1,34 milljón hektara. Að sögn ráðherra skógarmála í Skotlandi, Allans Wilson, hefur þessi ?græna fjárfesting? í skoskum sveitum borið ríkulegan ávöxt. Niðurstöður úttektarinnar sýna að flatarmál skóglendis hefur þrefaldast á undanfarinni öld. Á sama tíma hefur úrvinnsla timburafurða orðið til sem atvinnugrein í skoskum sveitum. Talið er að árlega skapi nytjar af skógi um tíu þúsund störf og verðmæti sem nemur 800 milljónum punda (107 milljörðum Ikr.).

Að sögn Wilsons má gera ráð fyrir að Skotar verði senn orðnir útflytjendur á viðarafurðum. Stefna skoskra stjórnvalda er að nýta skóga á sjálfbæran hátt og í samræmi við ýtrustu kröfur um umhverfisvernd. Í þessu felst m.a. að fleiri tré verði gróðursett en þau sem höggvin eru og að skógarnir fóstri sem fjölbreyttast lífríki. Síðasta áratuginn hefur áhersla verið lögð á að skapa fjölbreyttara skógarlandslag, fjölbreyttari möguleika til nýtingar skóganna og aukna sátt um framkvæmd skógræktar (?rétt tré á réttan stað?).


Þýðing og endursögn: Aðalsteinn Sigurgeirsson; Heimild: BBC, 21/4 2002 (http://news.bbc.co.uk/hi/english/uk/scotland/newsid_1941000/1941659.stm)